„Ég styð alltaf mína ráðherra,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Reykjavík vikublað, um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í skugga lekamálsins. Lögregla hefur um margra vikna skeið rannsakað hvernig minnisblað úr ráðuneytinu, með persónuupplýsingum um hælisleitandann Tony Omos, og tvær nafngreindar konur, komst í hendur fjölmiðla. Komið hefur fram að aðstoðarmenn ráðherra hafa stöðu grunaðra. Ríkissaksóknari hefur málið nú á sínu borði og ákveður hvort ákæra verður gefin út í málinu, frekari rannsóknar verði óskað eða málið fellt niður.
„Hún er besti ráðherra ríkisstjórnarinnar,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir þingkona um flokksystur sína. Unnur neitaði að svara til um hvað þyrfti til þess að Hanna Birni gæti ekki lengur reitt sig á hennar stuðning eða enn talist besti ráðherrann. Hún sagðist ósammála blaðamanni að innanríkisráðherra hefði verið kærð af þremur aðilum, hefði verið til rannsóknar lögreglu og að hún hefði villt um fyrir þinginu með fullyrðingum um að skjalið sé „ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu.“ Pétur Blöndal þingmaður er á sama máli. „Ég meina, ráðherrar eru kærðir fyrir ýmislegt sem stofnanir hafa gert t.d. umhverfismál og annað slíkt en þeir sátu áfram og þar var ekki gerð nein atlaga að þeim,“ segir Pétur. – Það sem þú nefnir eru samt stjórnsýslukærur en þetta er lögreglurannsókn í sakamáli. Á þessu er efnislegur munur. „Já mér finnst bara eðlilegast að bíða eftir að rannsókn ljúki.“ – Þú lítur svo á að hún eigi rétt á að sitja í stóli ráðherra þar til rannsókninni er lokið? „Sko, á meðan rannsókninni er ekki lokið þá get ég ekki dæmt,“ svarar Pétur. „Ég ætla ekki að láta setja mig í eitthvað dómarasæti.“ – Með því að setja ekki fram vantraust þá dæmir þú hana hæfa í ljósi stöðu þinnar sem þingmanns. „Já og ég held að hún sé mjög hæf.“
Daglega í dómarstól
Ítrekað vitnuðu þingmenn til þess að þeir gætu ekki dæmt innanríkisráðherra fyrr en rannsókn væri lokið. „Það er þannig að enginn er sekur fyrr en sekt er sönnuð. Ég styð Hönnu Birnu algjörlega í því sem hún hefur verið að gera. Hún er frábær stjórnmálamaður,“ svaraði Valgerður Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn virðast þannig í grundavallaratriðum misskilja stöðu sína sem fulltrúar á löggjafaþingi í landi þar sem ráðherra situr í umboði og á ábyrgð Alþingis. Hér á landi er svokallað neikvætt þingræði þar sem þingið samþykkir ekki með beinum hætti ráðherralista en gerir það þó með þögn sinni; með því að leggja ekki fram vantraust þegar ríkisstjórn er mynduð. Við þetta má þó bæta að samstarfssamningur stjórnarflokkanna sem og listi yfir ráðherra er samþykktur í flokksstofnunum stjórnarflokkanna. Þingmenn Framsóknarflokksins samþykkja samstarfið og ráðherra með beinum hætti í miðstjórn flokksins, þar sem þeir eiga sjálfkrafa seturétt. Í tilfelli Sjálfstæðisflokksins, flokks innanríkisráðherra, lýstu þingmenn flokksins stuðningi við hæfni allra ráðherra, þar á meðal innanríkisráðherra, á fundi flokksráðs.
Í neikvæðu þingræði er gengið út frá því að ráðherrar njóti stuðnings nema að fram komi efasemdir þingmanna. Með því að koma ekki fram með vantraust á ráðherra hafa því þingmenn allra flokka, en sérstaklega samflokksmenn innanríkisráðherra, kosið að umbera setu innanríkisráðherra þrátt fyrir það sem á undan er gengið. Það telst ekki til mannréttinda að vera ráðherra en það er pólitísk skylda þingmanna að meta efnislega út frá lögum, pólitík, trausti þingmanna ásamt almenningsáliti og öðrum forsendum sem þeir telja við hæfi hvort ráðherra geti starfað dag frá degi. Í þingræðisríki er það beinlínis skylda þingmanna að dæma hvort ráðherra er sætt eða ekki. Með sinnuleysi sínu hafa þingmenn því, ómeðvitað miðað við svör þeirra, skapað ráðherrum rými til að vera víkja ekki tímabundið jafnvel þótt pólitískir aðstoðarmenn ráðherra séu til rannsóknar lögreglu vegna brots gegn hælisleitanda sem hafði mál sitt til meðferðar í ráðuneytinu. Í framhaldi vaknar spurningin: hvað þarf að ganga á til þess að ráðherra beri að víkja? Með þaulsetu Hönnu Birnu er skapað nýtt fordæmi og vikið frá því erMagnús Guðmundsson dómsmálaráðherra skapaði þegar hann vék um stundarsakir árið 1932 sökum málaferla gegn honum.
Þekkingaleysi þjakar þingmenn
„Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur sem aðhyllist það að dómstóll götunar ráði því hver er saklaus og hver er sekur. Við verðum að fara eftir þeim leikreglum sem við höfum búið okkur til í þessu samfélagi.“ Þetta segir Elín Hirst þingkona Sjálfstæðisflokksins um málið. Þingræði er meðal leikreglna samfélagsins og það felur henni ábyrgð á störfum ráðherra. Um þá ábyrgð segir hún: „Ég tel mig ekki hafa beint umboð til að ræða þetta á þessum nótum. Ég er náttúrulega þingmaður Sjálfstæðisflokksins og hvort það er miðstjórn eða eitthvað sem ákveður þetta. Þetta er held ég ekki eitthvað innan míns valdsviðs sem þingmanns og það eina sem ég get sagt er að ég treysti Hönnu Birnu.“ Með ummælunum upplýsir Elín Hirst að hún er ekki kunnug skyldum sínum og hlutverki sem fulltrúi á löggjafaþingi. Hún bætir við: „Ráðherrar eiga ekkert minni mannréttindi en annað fólk.“ Um skyldur ráðherra gilda reyndar sérstök lög sem ekki gilda um aðra borgara landsins. Þau lög heita lög um ráðherraábyrgð. Lögin eru sérstök lagakvöð á þá sem gegna stöðu ráðherra. Þau eru tilraun til sérstaks aðhalds við það vald sem fámennum hópi ráðherra er falið tímabundið.
Staurblind réttsýni stjórnmálanna
Fyrstu viðbrögð Hönnu Birnu voru að neita lekanum úr ráðuneytinu að því er virðist gegn betri vitund. „Þú verður bara að tala við þingflokksformanninn.“ svaraði Vilhjálmur Bjarnason þingmaður sjálfstæðisflokksins um hvort Hanna Birna njóti hans stuðnings. „Ég ræði aldrei um málefni þingflokksins og ráðherra Sjálfstæðisflokksins.“ – Þú ert þingmaður og hún starfar í þínu umboði … „Ekki vera með neina frekju,“ svaraði Vilhjálmur og bætti við að hann svaraði ekki svona dónaskap eftir að spurningin hafði verið endurtekin nokkrum sinnum. Þar sker Vilhjálmur sig nokkuð úr meðal annara þingmanna flokksins en hann ásamt Ragnheiði Ríkharsdóttur þingflokksformanni, lýsti ekki afdráttarlausum stuðningi við setu Hönnu Birnu sem innanríkisráðherra og kaus að svara ekki spurningunni. „Heyrðu ég ætla bara ekkert að svara þessu. Þetta mál er bara í því ferli sem það þarf að vera í,“ sagði Ragnheiður við sams konar spurningu. – Hvert er það ferli? „Þú veist það manna best. Þessu er ekkert lokið og ég ætla ekkert að svara fyrir þetta,“ sagði Ragnheiður.
Það ferli sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vitnar til er að ríkissaksóknari tók við rannsóknargögnum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 20. júní síðastliðinn. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur farið með rannsókn málsins samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara. Saksóknari hefur ekki tekið ákvörðun um framhald málsins en á vef embættisins kemur fram að málahali embættisins sé mikill og því geti tekið tíma að komast að niðurstöðu. Rétt er að málið er til rannsóknar sem sakamál og þeirri rannsókn er ekki lokið en sakamálarannsókn léttir ekki ábyrgð af herðum þingmanna um að meta hæfni ráðherra til að starfa.
Afvegaleiddi þingið
Dómur hæstaréttar vegna kröfu Lögreglunar um blaðamaður Morgunblaðsins yrði knúinn til að gefa upp heimildamann leiðir i ljós að minnisblað var útbúið í innanríkisráðuneytinu seinnipart þriðjudagsins 19. nóvember 2013, innihélt viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni þriggja nafngreindra einstaklinga og barst út úr ráðuneytinu. Þá er upplýst að minnisblaðið var tekið saman af lögfræðingi í ráðuneytinu að beiðni skrifstofustjóra vegna fyrirhugaðra mótmæla við ráðuneytið vegna afgreiðslu þess á máli hælisleitandans. „Rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós að umrætt minnisblað var vistað á opnu drifi ráðuneytisins. Skrifstofustjóri sendi það með tölvupósti til ráðuneytisstjóra, ráðherra og tveggja aðstoðarmanna ráðherra kl. 17:17 hinn 19. nóvember 2013.“ Þrátt fyrir þetta voru það fyrstu viðbrögð innanríkisráðherra að þvertaka fyrir að skjalið gæti hafa komið úr ráðuneytinu. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma þann 16. desember sagði ráðherra að engin staðfesting væri fyrir því að gögn úr innanríkisráðuneytinu hefðu komist í hendur fjölmiðla: „Við höfum einungis munnmæli um það. Þeir sem hafa sent þessi gögn, og það eru ekki einu sinni sambærileg gögn og eru til í ráðuneytinu …“ Dómsskjölin sýna að þessar staðhæfingar ráðherrans stangast á við þá vitneskju sem Hanna Birna hlaut þá þegar að hafa um málið. Hanna Birna endurtók þessa staðhæfingu í sérstakri umræðu um málið á Alþingi 27. janúar þegar hún ítrekaði svo að þær upplýsingar sem komið hefðu fram í fjölmiðlum væru ekki sambærilegar við það sem finna mætti í gögnum ráðuneytisins: „… vegna þess að minnisblaðið sem hefur verið í gangi á ýmsum fjölmiðlum og hér og þar er ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu.“ Ítrekað hefur komið fram i fjölmiðlum að aðeins einni setningu hefur verið breytt frá skjali ráðuneytisins og skjalinu sem lekið var. Það er því harla trúverðugt að ráðherra sem áður hafði ítrekað sagt að hún gerði allt í sínu valdi til að komast til botns í málinu, og vitnaði þar á meðal til rannsóknar rekstrarfélags stjórnarráðsins á tölvukerfi ráðuneytisins, kannaðist ekki við líkindi gagnanna.
Kíkirinn fyrir blinda augað
„Ég upplifi þetta ekki svona,“ svarar Brynjar Níelsson spurningu Reykjavíkur vikublaðs um hvort misvísandi upplýsingar ráðherra breyti hans afstöðu ekkert. „Ég kannast ekki við að hún hafi sagt neitt ósatt. Liggur það eitthvað fyrir um það?“ – Það kemur fram í skjölum Hæstaréttar. „Það er ekki rétt ekki væri til sambærilegt skjal í ráðuneytinu. Skjalið er bara ekki alveg eins og skjalið í ráðuneytinu,“ segir Brynjar. – Sambærilegt er ekki sama og alveg eins. „Ég man ekki eftir að hún hafi notað orðið sambærilegt,“ svarar Brynjar. Eins og áður segir þá notaði Hanna Birna einmitt orðið „sambærilegt“ á þingi, 27. janúar síðastliðinn, þegar hún afneitaði ábyrgð á málinu í enn eitt sinn. Þess ber að geta að ræður Alþingis eru opnar almenningi og þingmönnum á vefnum í texta, hljóði og myndbandsformi. Þingmenn, kæri þeir sig á annað borð um slíkt, geta því hæglega gengið úr skugga um hvort og þá hvaða orð ráðherrar notuðu. „Ef hún hefur sagt mér ósatt og brotið reglur, hafi hún gert það sjálf, þá styð ég hana ekki. Það er ekkert sem bendir til þess að hún hafi sagt mér ósatt og ég styð hana fullkomnlega,“ segir Brynjar trúfastur. Ásmundur Friðriksson þingmaður flokksins segir Hönnu Birnu njóta fulls stuðnings. Um villandi ummæli ráðherra til þingsins segir hann eins og aðrir að hann hafi ekkert í höndunum til að meta slíkt. „Eins og staðan er núna þá nýtur hún bara stuðnings míns eins og hún hefur gert í vetur.“
Vilhjámur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill meina að vinnubrögð innanríkisráðuneytisins í lekamálinu séu því sem næst algild í íslenskri stjórnsýslu og því sé ekki ástæða til að vantreysta ráðherra. „Ef þetta væri þá myndi enginn í íslenskri stjórnsýslu njóta stuðnings.“ Hann bætir við: „Hvað eru mörg svona mál sem hafa farið út úr allri stjórnsýslunni hvort sem það er lögreglan, ráðuneytið eða eitthvað. Afhverju er þetta eina málið sem er lögð svona mikil áhersla á?“ Þingmaðurinn gekk lengra og segir málið aðeins rekið áfram að hagsmunum lögmanna. – Telurðu að þetta sé eitthvað samsæri lögmanna? „Ekkert samsæri en mér finnst þetta bara ótrúlegt hvað blaðamennska er einsleit í þessu. Það er ekki allt hitt skoðað.“ – Hvað annað á að skoða? „Til dæmis hvað varð um hælisleitandann. Hvaða áhrif hafði þetta á hann. Er hann farinn úr landi? Hverjir eru það sem berjast í þessu máli.“ Öllum spurningum þingmannsins hefur þegar verið svarað af fjölmiðlum. Tony Omos var sendur til Sviss án vitneskju lögmanns hans. Þar bjó hann á götunni um tíð en er nú talinn vera á Ítalíu. Lögmaður Tony Omos heitir Stefán Karl Kristjánsson hjá KRST lögmannastofu en lögmaður Evelyn Glory Joseph, sem einnig er nefnd í minnisblaðinu er Katrín Oddsdóttir hjá Rétti ehf. Þrátt fyrir ábendingar um annað taldi þingmaðurinn sig vel inni í málinu. „Af hverju á ég að draga í efa hæfni hennar vegna þess að lögreglan er búin að leka í DV fullt af upplýsingum. Hlutum sem standa í lögregluskýrslum og svo hafið þið upplýsingar um að hún hafi stöðu sakbornings en einstaklingurinn sjálfur hefur ekki fengið þessar upplýsingar,“ sagði Vilhjálmur. Það skal tekið fram að Reykjavík vikublað hefur engar upplýsingar um hvort ráðherra sjálf hafi stöðu grunaðs einstaklings, heldur að raðuneyti hennar, hið sama og hún persónugerir sem ráðherra sé til rannsóknar. Þegar hefur komið fram að aðstoðarmenn hennar báðir hafa stöðu grunaðs. Þá hefur Reykjavík vikublað ekki upplýsingar um að aðrir miðlar hafi staðfest réttarstöðu innanríkisráðherra. Stefán Eiríksson lögreglustjóri gaf ekki færi á sér til að svara fullyrðingum þingmannsins um þátt lögreglunar í fréttaumfjöllun DV. Við lestur frétta DV bendir fátt til þess að samskipti blaðsins við lögreglu séu með svo kumpánarlegu móti sem þingmaðurinn lýsir.
Meta ekki fyrirliggjandi gögn
„Staða hvers ráðherra sem gefur þinginu vísvitandi rangar upplýsingar er mjög alvarleg,“ segir Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Ég er ekki í þeirri stöðu að meta hvort Hanna Birna hafi gert það. Ég þarf að öðlast meiri umræður á vetvangi þingsins áður en ég get mótað mér afstöðu um það.“ – Þrjár kærur, lögreglurannsókn og villandi ummæli á þinginu hvað þarf til þess að þú, og þið í Sjálfstæðisflokknum, teljið ljóst að hún njóti ekki trausts sem ráðherra í ykkar umboði ef ekkert af því sem áður hefur gengið á nægir? „Nei, sko ég ætla að biðja þig um að snúa ekki út úr því sem ég er að segja við þig. Ef það er staðreynd í þessu máli þá er það alvarlegt fyrir þann ráðherra. Ég hef ekki forsendur til að meta það hér og nú.“ – Í ljósi þess að fyrirliggjandi opinber gögn sýna að ráðherra gaf þinginu villandi mynd, geta þínir kjósendur þá treyst á að þú farir og kynnir þér þetta mál til þess að geta þá sinnt skyldu þinni og sagt til um hvort hún njóti áframhaldandi stuðnings til að starfa sem ráðherra? „Þetta mál verður rætt á vetvangi þingflokksins þar sem farið verður yfir það. Ég veit ekki hvenær það verður en það verður ekki mjög langur tími. Að þeirri yfirferð lokinni þá get ég tjáð mig um þetta en ekki fyrr.“
Óskað var viðbragða Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, við vinnslu greinarinnar. Þeim erindum var ekki svarað.
Upphaflega birt í Reykjavík vikublað júlí 2014