Íslensk njósnastarfsemi er líklega með verst geymdu leyndarmálum sögunnar. Reglulega koma upp ásakanir og gögn um slíka starfsemi hér á landi. Slíkum fullyrðingum er iðulega svarað með háði og efasemdum. Skjöl bandarískra yfirvalda, opinber gögn og jafnvel dagbækur stjórnmálamanna sýna þó að óumdeilanlegt er að njósnir eru og hafa verið stundaðar hér á landi. Meðal þátttakenda eru áhrifamiklir menn á sviði fjölmiðla og jafnvel fyrrverandi ráðherrar.
Keflavík, 16. júlí 1974, skömmu eftir Alþingiskosningar; tveir blaðamenn setjast í bíl með fulltrúa bandarískra yfirvalda og deila með honum trúnaðarupplýsingum sem þeim hafði verið treyst fyrir í krafti starfs þeirra sem blaðamenn. Óvissa er um ríkisstjórnarmyndun vegna nýafstaðinna kosninga. Blaðamennirnir heita Björn Bjarnason, fréttastjóri á Vísi, og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins. Þeir eru óhræddir við að deila upplýsingum úr trúnaðarsamtölum við nafngreinda stjórnmálamenn, heimildarmanna sem óskað höfðu nafnleyndar.
Kissinger-skjölin
Herstöðin á Keflavíkurflugvelli var bandarískum yfirvöldum afar mikilvæg á tímum kalda stríðsins og sama má segja um íslensk yfirvöld sem litu á veru herstöðvarinnar hér á landi sem mikilvægt atvinnu- og varnarmál. Skjalasöfn frá tíð Henry Kissinger í stóli utanríkisáðherra voru gerð opinber fyrir nokkrum árum en þau leiddu í ljós hve langt bandarísk yfirvöld gengu í upplýsingaöflun á tímum kalda stríðsins. Töldu margir að tímar upplýsingaöflunar á slíkum skala væri lokið. Árið 2010 birti Wikileaks hins vegar skjöl bandarískrar utanríkisþjónustu og leiddi það síður en svo í ljós að bandarísk yfirvöld hefðu dregið úr eftirliti sínu. Skömmu síðar upplýsti Edward Snowden um ótrúlegar njósnir bandarískra yfirvalda um heim allan. Enn sér ekki fyrir endann á úrvinnslu þeirra gagna. Í Kissinger-skjölunum er meðal annars að finna skjal frá bandaríska sendiherranum hér á landi, frá 1974, þar sem því er lýst hvernig Styrmir og Björn, fyrrverandi ráðherra og þá fréttastjóri á Vísi, veita sendiherranum upplýsingar um stöðu mála í íslenskum stjórnmálum. Þá hafa þeir Björn og Styrmir heimsótt herstöðina á Keflavíkurflugvelli og spjallað við sendiherrann í bíl á leiðinni um stöðuna í stjórnmálunum. Greint er frá því að Styrmir hafi talað mest. Þar er meðal annars vitnað í einkasamtöl Styrmis við ýmsa nafngreinda menn.
Vefritið Smugan fjallaði árið 2013 um málið og bar upplýsingarnar undir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing, sem sagðist hafa það staðfest að Björn og Styrmir hafi verið meðal þeirra aðila sem veittu bandarískum yfirvöldum góðfúslegar upplýsingar um stöðu stjórnmála á Íslandi.
Njósnarinn Styrmir
Styrmir greindi nýlega frá því í bók sinni Í köldu stríði – Vinátta og barátta á átakatímum, að hann hafi í tæpan áratug stundað njósnir um íslenska kommúnista fyrir hönd Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokks. Styrmir segir í bókinni að það sé of virðulegt heiti að tala um „njósnir“. Þetta hafi verið upplýsingaöflun og hann hafi aldrei haft nokkrar efasemdir um að hann hafi gert rétt með því að vinna þetta verk. Þó kemur fram að hann hafi vitað að eintak af skýrslum hans hafi, auk þess að vera notuð við fréttaskrif í Morgunblaðinu, farið rakleitt til Bjarna Benediktssonar, dómsmálaráðherra og síðar forsætisráðherra, og Geirs Hallgrímssonar, borgarstjóra og síðar forsætisráðherra. Þrátt fyrir að Styrmir geri afar lítið úr njósnunum verður því ekki neitað að það þykja almennt tíðindi að forysta stærsta stjórnmálaafls landsins hafi tekið við skýrslum, rituðum um miðjar nætur og hafðar eftir leynilegum heimildarmönnum í samtökum vinstrimanna. Þetta er kallað njósnir og skiptir litlu hvaða nafni gerandinn vill kalla það. „Stóra spurningin var hins vegar þau tengsl, sem ég taldi vera við bandaríska sendiráðið en ég hafði enga örugga vitneskju um slíkt samstarf við fulltrúa annarrar þjóðar,“ segir Styrmir í bókinni. „Hafi svo verið, vorum við ekki að gera það sama og við sökuðum kommúnista um vegna tengsla þeirra við sovézka sendiráðið við Túngötu? Frá okkar sjónarhóli var grundvallarmunur á. Við vorum að berjast fyrir frelsi og lýðræði og gegn einræði og kúgun.“ Þrátt fyrir að Styrmir geri hér tilraun til að gera lítið úr vitneskju sinni skal tekið fram að í dag er raunar fáu ósvarað í þeirri spurningu sem hann sjálfur leggur fram. Vissulega má vera að hann hafi á þessum árum ekki gert sér grein fyrir þætti sínum en bókin er skrifuð árið 2014, þegar ítrekaðar heimildir um njósnir Bandaríkjanna og Sjálfstæðisflokksins hafa verið birtar með reglulegu millibili.
„Mannlíf á spjaldskrá“
Gagnaöflun bandarískra yfirvalda og aðila tengdum Sjálfstæðisflokknum, voru heldur ekkert sérstakt leyndarmál á árum áður. Ótrúlegt magn opinberra upplýsinga eru til um athæfið sem og aðrar njósnir yfirvalda. Ítrekað hefur verið fjallað um njósnir hér á landi. Þar má nefna bækur sagnfræðingsins Guðna Th., Óvinir Ríkisins, og ævisögu Gunnars Thoroddsen. Þór Whitehead sagnfræðingur fjallaði nýlega um persónunjósnir um konur á hernámsárunum, þá hefur hann fjallað ítarlega um öryggis- og leynilögreglu íslenskra yfirvalda, sem starfrækt var um áratugaskeið á tímum kalda stríðsins, en hún var stofnuð skömmu fyrir síðari heimsstyrjöldina. Þá má nefna njósnir lögregluyfirvalda á íslenskum grænfriðungum, sem fjallað var um í tímaritinu Þjóðlíf seint á níunda áratugnum. Lögregluyfirvöld þvertóku í fyrstu fyrir allar njósnir en voru síðar neydd til að viðurkenna persónunjósnir. Þjóðviljinn fjallaði árið 1963 um spjaldskrá bandaríska sendiráðsins en í umfjöllun blaðsins kemur fram að sendiráðið hafi í sinni þjónustu hóp manna, innlenda og erlenda „sem snuðra um einkamál og skoðanir hvers manns í landinu“. Umfjöllunin er birt á þeim árum sem Styrmir viðurkennir nú að hafa stundað upplýsingaöflun og vakti nokkra athygli.
Björn vildi ekkert rannsaka
Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson frá 2006 vakti mikla athygli. Í bókinni er fjallað um eftirlit yfirvalda hér á landi og kemur meðal annars fram að símar stjórnmálamanna og verkalýðsforkólfa voru hleraðir á vegum öryggisþjónustu íslenskra yfirvalda. Kallað var eftir rannsókn á Alþingi en við því var ekki orðið. „Það virðist sem ráðamenn hafi misst allt taumhald og glatað virðingu fyrir leikreglum lýðræðisins og friðhelgi einkalífs,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá formaður Samfylkingarinnar um málið á þingi. Í bókinni kemur fram að símar átta til tíu þingmanna hafi verið hleraðir en Ingibjörg nefnir það sérstaklega auk þess að benda á sumir þeirra einstaklinga sem hleraðir voru hafi raunar aðeins verið áhugamenn um stjórnmál. „Mér sýnist, þegar maður skoðar þessi mál, að það sé eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki litið svo á að hann hefði tímabundið umboð frá kjósendum þegar hann var í ríkisstjórn heldur lægi í sjálfum Sjálfstæðisflokknum formbundið eða stofnanabundið vald vegna þess hversu oft hann átti aðild að ríkisstjórn og hann hafi í raun misbeitt ríkisvaldinu og vegið að æru og orðspori þeirra sem urðu fyrir hlerunum. Þetta er svartur blettur á sögu þjóðarinnar, virðulegur forseti, sem verður að upplýsa. Það verður að leiða sannleikann í ljós í þessum málum til að hægt sé að loka þessum kafla í sögu þjóðarinnar,“ sagði hún í desember árið 2006. Fyrr um árið hafði Björn Bjarnason, þá dómsmálaráðherra, tjáð sig um málið. „Sérstaklega er skrýtið að hlusta á hina gömlu sósíalista og Alþýðubandalagsmenn tala eins og símahleranir komi þeim algjörlega í opna skjöldu. Þeir hömruðu þó á því sýknt og heilagt á þessum árum, að stjórnvöld væru að alltaf að hlera síma. Hafi eitthvað komið þeim á óvart í erindinu væri það líklega, að skiptin eru sex og nákvæmlega tilgreind auk þess sem dómsúrskurður er að sjálfsögðu að baki hverri heimild,” skrifaði Björn um málið á vefsíðu sinni. Örfáum mánuðum áður höfðu bandarísk yfirvöld svipt hulunni af fjölda skjala sem sýndu fram á upplýsingaöflun þeirra hér á landi; þar á meðal með hjálp ungs manns sem seinna sat í stóli dómsmálaráðherra og talaði niður þörfina á rannsókn á verkum yfirvalda.
Njósnað um Laxness
Í hálfa öld var aðeins ein af bókum Halldórs Laxness gefin út á Bandaríkjamarkaði þrátt fyrir að hann hafi hlotið Nóbelsverðlaun fyrir framlag sitt til bókmennta árið 1955. Bandaríski bókmenntafræðingurinn Chay Lemoine hélt því fram árið 2007 að ferill Laxness í Bandaríkjunum hefði verið eyðilagður með skipulögðum hætti, sökum stjórnmálaskoðana hans, af hálfu þarlendra yfirvalda. Þá hélt hann því fram að íslensk yfirvöld hefðu starfað náið með þeim bandarísku og að markmiðið hefði verið að eyðileggja orðspor Laxness hér á landi og í Bandaríkjunum. Frekari stoð var svo rennt undir ásakanir Lemoine árið 2011 en þá vitnaði Halldór Þorgeirsson kvikmyndagerðarmaður til leyniskjala bandarískra yfirvalda þar sem greint var frá því að Bjarni Benediktsson hafi á sjöunda áratug síðustu aldar óskað aðstoðar bandarískra yfirvalda við að eyðileggja orðstír Laxness. Bent er á að beiðni Bjarna hafi komið um svipað leyti og Atómstöðin var skrifuð. Í bókinni fjallar Laxness um hernám Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi og er afar gagnrýninn á ákvörðun íslenskra yfirvalda um að heimila byggingu herstöðvar hér á landi. J. Edgar Hoover, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar, mun hafa átt hlut að máli. „Af þeim fáu skjölum, sem CIA hefur ekki neitað mér um aðgang að, má augljóslega sjá að leyniþjónustan var með einhvern á Íslandi til að safna upplýsingum um stjórnmálaástandið og umsvif kommúnista. Fyrir vikið er öruggt að þeir hafa fylgst með Halldóri vegna skoðana hans,“ sagði Lemoine í samtali við DV árið 2007. Halldór Guðmundsson, rithöfundur og forstjóri Hörpu, ritaði ævisögu Halldórs Laxness og hlaut fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin. Í samtali við DV vegna umfjöllunar blaðsins um aðgerðir yfirvalda gegn Laxness segir Halldór að tíðindin komi sér ekki á óvart. Hann segist hins vegar hissa á því hvers vegna leyniþjónustan neiti enn að afhenda gögnin. Halldór færði sönnur á samráð íslenskra og bandarískra stjórnvalda um að knésetja nóbelskálið.
Njósnanetið í Reykjavík
Sjálfstæðisflokkurinn stefndi á síðustu öld að því að hafa trúnaðarmenn í öllum fyrirtækjum í höfuðborginni þar sem fleiri en tíu voru í starfsliði, sem fylgdust með skoðunum fólks. Þetta kemur fram í ævisögu Guðna Th. um ævi Gunnars Thoroddsen en bókin er byggð á dagbókarskrifum Gunnars. Þá kemur fram að flokkurinn hafi á sjöunda áratugnum átt nærri 400 fulltrúa sem fylgdust með borgurum sínum. Í bók Guðna segir frá undirbúningi sveitarstjórnarkosninganna árið 1958. Fyrir þær hafði ríkisstjórn Hermanns Jónassonar beitt sér fyrir breytingum á kosningalögum. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að fulltrúar stjórnmálaflokkanna gátu ekki lengur fylgst með því á kjörstað hverjir hefðu nýtt kosningaréttinn. Sjálfstæðismenn urðu að breyta „kosningamaskínu“ sinni með hliðsjón af því undir styrkri stjórn Baldvins Tryggvasonar og Birgis Kjaran. Á blaðsíðu 260 í bókinni segir: „Flokksvélin mikla var í meginatriðum óbreytt: Reykjavík var skipt í 120 umdæmi og voru að jafnaði 5–10 fulltrúar í hverju þeirra (samtals 654 snemma árs 1957). Þeir skráðu stjórnmálaskoðanir nágranna sinna og voru þær upplýsingar færðar í skrár í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins við Suðurgötu. Svo kappsamir voru þeir Baldvin og Birgir að þeir þekktu fulltrúana nær alla með nafni og mundu jafnvel símanúmer þeirra. Á vinnustöðum kom öflugt trúnaðarmannakerfi einnig að gagni. Þar fylgdust Sjálfstæðismenn með spjalli félaganna um daginn og veginn og komu sjónarmiðum þeirra í stjórnmálum á framfæri í Valhöll..“
Rather than stretching fights, viagra 50 mg it’s better to settle down the matter and have a nice time in bed. Erection issues arise within a man only when he is done having sex, the erection goes away. cialis no prescription uk is not a hormone or aphrodisiac so it will not slip even; you will use it on slippery floor. Moreover, individuals taking medication containing canadian online viagra nitrates should not use more than Kamagra 50 per day. While most viagra online france games consoles allow the user to be available.
Vissi fátt en neitaði samt
„Þetta þykja mér mjög áhugaverðar fréttir um félagsfræðirannsóknir á vegum stjórnmálaflokka sem styrktar eru af almannafé,“ sagði Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, um málið á Aþingi í lok árs 2011. „Mig langar til að spyrja hvort þessar merkilegu sagnfræðiupplýsingar verði ekki gerðar aðgengilegar á netinu hið allra fyrsta vegna þess að gaman væri fyrir þá sem uppi eru núna að komast að því hvaða pólitísku gen eru í þeim. Sömuleiðis langar mig til að vita hvort það markmið sem þarna er talað um, að koma upp persónunjósnum hjá öllum fyrirtækjum sem eru með fleiri en tíu í starfsliði, hafi náðst.“ Andsvar veitti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, sem þá var óbreyttur þingmaður, og sagðist ekki hafa lesið bókina, væri ekki kunnugt um hvort njósnirnar hefðu átt sér stað og vissi ekki til þess að slíkt ætti sér enn stað. „Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég er ekki búin að lesa þess bók. Hún er svo sannarlega á jólagjafaóskalistanum mínum og ég sótti fund um daginn þar sem höfundur bókarinnar og tveir ágætir stjórnmálamenn fjölluðu um hana. Þarna er á ferðinni mjög áhugavert efni, sérstaklega fyrir sagnfræðinga. Það er fjallað um árabilið sem hv. þingmaður vísaði í, held ég 1956–1958, og ég verð að játa að ég get ekki svarað spurningu hv. þingmanns um persónunjósnirnar vegna þess að mér er alls ekki kunnugt um hvort þær hafi einhvern tímann átt sér stað. Ég veit þó að þær eru ekki viðhafðar núna, að minnsta kosti ekki þannig að mér sé kunnugt um þær, þannig að það er mitt svar eftir minni bestu vitneskju. Hvað það varðar að gera þetta efni aðgengilegt á netinu verð ég að vísa til þeirra sem hafa aðgang að þessu efni. Það er ekki á mínu forræði. Þetta er frekar snubbótt svar en það er vegna þess að meira veit ég ekki um málið.“
Ástandið og ungmennaeftirlitið
Jóhanna Knudsen, lögreglukona og yfirmaður ungmennaeftirlitsins, njósnaði um tæplega þúsund konur á stríðsárunum. Njósnirnar voru viðamiklar og skipulagðar en upplýsingum var safnað um konur sem taldar voru í ástandinu, það er í tygjum við hermenn. Þjóðskjalasafn fékk aðgang að gögnum Jóhönnu árið 1961 en með því skilyrði að ekki yrði opnað fyrir aðgengi að þeim næstu hálfu öldina, það er árið 2011. Jóhanna skráði upplýsingar um konur í tíu bækur og komu upplýsingarnar frá mörgum heimildarmönnum, ekki síst frá leynierindreka þáverandi lögreglustjóra og einum tilteknum lögregluþjóni. Ásdís Thoroddsen, leikstjóri- og leikhöfundur, hlaut árið 2012 evrópsku ljósvakaverðlaunin fyrir útvarpsleikritið Ástandið, sem byggði á gögnunum. Leikritið fylgir Guðrúnu sem kynnist breska hermanninum Bob í þann mund sem íslensk yfirvöld koma á bráðabirgðalögum sem banna samskipti ungmenna og setuliðsins og settur er á laggirnar ungmennadómstóll. Farið er með ástir Guðrúnar og Bobs sem glæpamál og metnaðargjarna skólastúlkan hrekst inn í örlagaþrungna atburðarás. Þór Whitehead fjallaði ítarlega um ungmennaeftirlitið í tímariti Sögufélagsins í janúar síðastliðnum. Í kjölfarið sagði hann klárt mál að hér væri um njósnir að ræða. Þór sagði í samtali við RÚV að Jóhanna hafi tvímælalaust litið svo á að í því væru fólgin einhvers konar landráð að konurnar væru í samskiptum við útlendinga. „Afstaða hennar til þessara kvenna var þar af leiðandi mjög fjandsamleg í eðli sínu. Auk þess taldi hún að þær væru sekar um siðferðisbrot. Sem sagt að öll samskipti við hermenn væru bæði óþjóðleg og ósiðleg. Þetta voru auðvitað hreinar njósnir, það var hnýsast um kynlíf og um siðferði þessara 800 til 1000 kvenna í Reykjavík með skipulögðum hætti.“ Svonefnd ástandsskýrsla, sem var gerð 1941, byggði á gögnum Jóhönnu. Þar segir að lögreglan sé með á skrá 20 prósent af þeim konum sem séu í ástandinu eða 500. Miðað við fjölda kvenna 12 til 61 árs í Reykjavík þýddi það að þetta ætti við um 2.500 konur. Flest bendir til að sú tala sé út í hött. Skýrslan var þó nýtt til að koma á fót vinnuhæli í Borgarfirði þar sem fórnarlömb herferðarinnar voru vistuð. Hælið var fljótlega aflagt en Jóhönnu var sagt upp störfum árið 1944.
Njósnir vegna Kárahnjúka
Breska blaðið Guardian greindi frá því árið 2011 að breskur lögreglumaður að nafni Mark Kennedy/Mark Stone hefði árum saman njósnað um umhverfisverndarsinna með því að þykjast vera einn þeirra. Málið olli miklu uppnámi í Bretlandi og þótti skýrt dæmi um hve langt bresk yfirvöld eru tilbúin að ganga í persónunjósnum um eigin borgara. Mark Kennedy kom sér fyrir í hreyfingunni Saving Iceland sem mótmælti byggingu Kárahnjúka harðlega. Þá kom í ljós að hann hafði ýtt undir herskáar mótmælaaðgerðir og þannig átt þátt í að rýra trúverðugleika hreyfingar umhverfisverndarsinna. Íslensk lögregluyfirvöld hafa ávallt neitað allri vitneskju um Kennedy. Það hafa samtökin Saving Iceland hins vegar aldrei tekið trúanlegt og hafa raunar sýnt fram á annað með birtingu myndar af tveimur íslenskum lögreglumönnum að kljást við Mark Kennedy. Í yfirlýsingu sagði lögreglan myndina ekki af Mark Kennedy heldur öðrum manni. Sú skýring er ekki trúverðug enda nokkuð til af myndum af Kennedy, þar á meðal myndir þar sem hann er í sömu fötunum.
Persónunjósnir í atvinnuskyni
Nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins birti árið 2005 skýrslu um verkaskil milli lögreglu og einkarekinnar vakt- og öryggisþjónustu þar sem kemur fram að vitað sé um tilvik þar sem einkaaðili hefur boðið fyrirtækjum, starfsgreinum og einstaklingum að annast fyrir þá persónunjósnir „Þessi starfsemi byggist eðli málsins samkvæmt á að fara inn á friðhelgi einkalífs með því að „skyggja“ fólk, mynda og hlera til að safna og koma á framfæri til viðskiptavinar viðkvæmum upplýsingum um fólk og athafnir þess, um viðskipta- og iðnaðarhagsmuni svo og um opinbera starfsemi sem varðar heill og öryggi almennings,“ segir í skýrslunni. Lýst er áhyggjum vegna þessa; „Þær upplýsingar geta, í saknæmum höndum viðskiptavinar eða „njósnarans“ sjálfs, leitt til kúgunar og/eða annarrar misbeitingar í krafti vitneskju sem þolandi telur skaðlegt að fari víðar“. Þá leggur nefndin til að; „setja verði lög sem banni persónunjósnir einkaaðila og að þung viðurlög verði við að brjóta slíkt bann þar sem ábati getur verið það mikill í þannig starfsemi, eða kúgun henni fylgjandi, að ólöglegir persónunjósnarar taki litla áhættu með léttvægum sektum“. Björn Bjarnason, sem áratugum áður hafði matað bandarísk yfirvöld á upplýsingum, var dómsmálaráðherra þegar skýrslan var unnin.
Iðnnjósnir Kína á Íslandi
Bandarísk yfirvöld telja að Kínverjar stundi iðnnjósnir hér á landi. Þetta kemur fram í sendiráðsgögnum þeim er Wikileaks birti árið 2010. „Talið er að Kínverjar stundi iðnnjósnir á sviði erfðagreiningar og læknisfræðilegra rannsókna á Íslandi,” segir meðal annars í einu skjalanna sem birt voru. Skjalið, sem dagsett er 27. febrúar árið 2009, er merkt „leyndarmál“ og afrit send leyniþjónustunni CIA, alríkislögreglunni FBI og leyniþjónustu hersins, DIA. Í skjali sem vistað er á aðfangadag sama ár segir að Bandaríkjamenn telji að Kínverjar „haldi áfram” iðnnjósnum á Íslandi, annars vegar með hefðbundnum njósnum og hins vegar með tæknibúnaði, en það getur falið í sér símahleranir og njósnir á Netinu, til dæmis innbrot í gagnabanka. Þá kemur fram að Rússar fylgist með njósnum Kínverja en bent er á að staðgengill sendiherra Rússlands í Reykjavík, Valery Birjukov, sé álitinn sérfræðingur í málefnum Kína. Hann starfaði áður í Kína á vegum sovésku utanríkisþjónustunnar. Fréttablaðið gerði málið að umfjöllunarefni. „Kínversk stjórnvöld eru talin stunda umfangsmiklar iðnnjósnir um allan heim. Vestrænir sérfræðingar hafa talið að allt að milljón manns séu á þeirra snærum við að stela viðskiptaleyndarmálum, en Rússar séu næstduglegastir við iðnnjósnirnar, með hundruð þúsunda útsendara.“ Í kjölfar ásakananna fór Íslensk erfðagreining – Decode fram á lögreglurannsókn. „Við tökum þetta mjög alvarlega og við tökum það alltaf alvarlega þegar menn eru að tala um þann möguleika að einhver utanaðkomandi komist í okkar gögn,” sagði Kári Stefánsson, forstjóri Decode í samtali við Stöð 2. Af hálfu kínverska sendiráðsins var lítið um svör vegna málsins. Sendiráðið vísaði aðeins á sendiráð Bandaríkjanna um leið og spurt var hvort einhver gögn væru til þar sem styddu ásakanirnar.
Sérstakt eftirlit með anarkistum
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu var nýlega þvingaður til að afhenda skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, þar sem fjallað er um aðgerðir lögreglu vegna mótmæla frá árinu 2008-2011. Skýrslan staðfestir að lögreglan tekur saman upplýsingar um stjórnmálaskoðanir fólks og nýtir þær upplýsingar við mat á eftirlitsþörf með einstaklingum. Þessu neitaði lögreglustjórinn í Reykjavík meðal annars á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna málsins. Skýrslan talar þó sínu máli. „Búist var við nokkuð hörðum aðgerðum af hendi nokkurra mótmælenda. Helst voru það anarkistar og 50 til 100 manna hópur sem þeim fylgdi. Var ákveðið að fá óeinkennisklædda skólanema Lögregluskólans til að vera innan um mótmælendur til að sjá hvort eitthvað væri í aðsigi sem kallaði á aðgerðir lögreglu,“ segir í skýrslunni. Í skýrslunni kemur einnig fram að lögreglumaður sem annaðist atburðarstjórn við mótmæli hafi beðið um að fylgst yrði með anarkistum.
Aldrei má rannsaka
Hér hefur verið stiklað á stóru hvað varðar njósnir á Íslandi. Umfjöllun þessi er ekki tæmandi, styðst aðeins við opinberar upplýsingar og gat ekki snert á nema hluta mála. Öllum ætti því að vera ljóst að njósnir eru stundaðar á Íslandi. Hvers vegna yfirvöld hafa aldrei opnað fyrir rannsókn á þeim er sú spurning sem mestu skiptir að svara.
Greinin birtist upphaflega í desembertölublaði Man magasín árið 2014