Nýleg bók þeirra Stefáns Ólafssonar og Arnalds Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi, fjallar um hvernig tekju- og eignaskipting á Íslandi þróaðist frá millistríðsárunum til samtímans. Sýnt er hversu ójafnt tekjur og eignir skiptust fyrir stríð en urðu svo mun jafnari á eftirstríðsárunum. Blað stéttarfélaganna hitti Stefán á skrifstofu hans í Háskóla Íslands til að ræða inntak bókarinnar.
„Við Arnaldur Sölvi vildum gera tímabili hinna miklu breytinga á tekju- og eignaskiptingu skil og þess vegna fórum við í að skrifa þessa bók,“ svarar Stefán aðspurður hvað varð til að Ójöfnuður á Íslandi var skrifuð. „Tímabilið frá 1995 og fram að hruni er auðvitað alveg sérstakt tímabil breytinga. Við vildum gera þessum málum skil í víðara samhengi, lengri tíma og fara aftur til millistríðsáranna vegna þess að við höfðum aðgang að gögnum til þess tíma. Raunar er bókin gerð með svipuðum hætti og Thomas Piketty og hans samstarfsmenn hafa verið að gera í rannsóknum á þessu sviði. Við Arnaldur vildum hafa bókina ítarlega og beittum öllum helstu rannsóknaraðferðum sem tíðkast á þessu sviði til þess að leita skýringa á breytingunum. Við vildum segja þessa sögu í formi gagna en um leið tengja þá sögu við stjórnmálaviðhorfin og breytingar á stjórnmálaumhverfinu. Við tengjum breytingarnar á tekjuskiptingunni við hnattvæðingu og fjármálavæðinguna sem eru nátengdar þessum breytingum.“
Hagvöxtur og jöfnuður
– Ísland fer frá því að vera land mikils ójafnaðar í að vera líklega eitt jafnasta ríki heims samhliða því að hér var gríðarlegur hagvöxtur og almenn lífsgæði bötnuðu verulega á árunum eftir seinna stríð. Þetta er væntanlega gert meðvitað og með aðgerðum sem virka? „Já, þetta gerist með markvissum aðgerðum. Á millistríðsárunum var Ísland með álíka ójafna tekjuskiptingu og grannþjóðirnar flestar. Frá og með árum seinni heimsstyrjaldarinnar jafnast þetta mikið. Í reynd virðist sem að Ísland sé sennilega með jöfnustu tekjuskiptingu í heimi á þessum 40-50 fyrstu árum lýðveldisins. Ísland er þarna ívið jafnara en hin Norðurlöndin. Það er út af fyrir sig athyglisvert, en það er líka athyglisvert því það er til þessi kenning að þú þurfir að hafa ójöfnuð til að fá góðan hagvöxt. Við vorum með einu jöfnustu tekjuskiptingu í heimi samhliða því að vera efnahagsundur, því hér var hagvöxtur með mesta móti og mikil velferðarþróun. Á þessu tímabili er uppbygging almannatrygginga, heilbrigðiskerfis og menntakerfis. Lífskjör batna hérna gríðarlega mikið þrátt fyrir þetta jafnaðarumhverfi. Það er þvert á allar kennisetningar nýfrjálshyggjunnar. Það er dálítið mikilvæg lexía.“
Ójöfnuður er ákvörðun
– Nú höfum við gögn og tiltölulega nýliðna sögu um hagstjórn sem virkar til aukinna lífsgæða, hagvaxtar og jöfnuðar. Hvað veldur tregðu til að nota þær aðferðir einfaldlega og þá í örlítið uppfærðu formi? „Þetta tímabil eftirstríðsáranna er náttúrulega tími blandaðs hagkerfis og sennilega var blandan framan af þannig að hún gekk um of út í ríkisafskipti, óþarflega mikið og við vorum seinni til að auka jafnvægið milli ríkisafskipta og markaðsáhrifa. Við hefðum átt að hleypa meiri markaðsáhrifum inn án þess að leyfa þeim að drekkja okkur. Við vorum kannski fullmikið í höftum og slíku en farsæl efnahags- og velferðarþróun þarf að alltaf að vera jafnvægisstefna milli þess að þú sért að nýta þér kosti markaðarins og kosti lýðræðisins og ríkisvaldsins. Það er best að sigla milliveg. Ég er ekki endilega að segja að það sé millipólitík en við erum með þessi tvö kerfi: markaðinn og lýðræðisleg stjórnmál. Við þurfum að nýta okkur kosti beggja í bland, eins og John Stuart Mill kenndi á 19. öldinni.“ – Hvað er það sem breytist í stjórnmálunum? Þetta voru nefnilega hugmyndir sem almenn sátt ríkti um. „Ég segi það nú stundum að eftir að Svíar fóru að veita nýfrjálshyggjumönnum Nóbelsverðlaun í hagfræði (Friedman, Hayek og Buchanan o.fl.) þá varð nýfrjálshyggjan smám saman ríkjandi stjórnmál hagfræðinnar. Það smitaðist svo um allt samfélagið. Sumir þessara manna voru nú meiri áróðursmenn en fræðimenn. Nýfrjálshyggjan fékk þannig lögmæti sitt á 8. áratugnum, meðal annars vegna þessa verðlauna. Frá og með 1980 þá varð hún smám saman ríkjandi pólitík og það tengist kannski líka því að vinstri pólitík fór svolítið í ógöngur. Menn fóru of mikið kannski í varnarstöðu og fitjuðu ekki nógu mikið upp á nýjungum. Það er aldrei gott að spila bara varnarbolta og engan sóknarbolta. Þá lætur þú andstæðinga þína eina um sóknina. Það er dálítið þannig sem ég sé pólitísku umskiptin á síðustu 30 til 40 árum.“
Hnattvæðingin guðsgjöf til nýfrjálshyggjunnar
„Hnattvæðingin spilaði í sjálfu sér uppi í hendurnar á nýfrjálshyggjunni. Hnattvæðingin greiðir götu óheftu markaðsháttana og hún grefur undan möguleikum lýðræðislegra stjórnmála til að hafa áhrif í hverju landi fyrir sig. Í staðinn magnast áhrif alþjóðlega fjármálamarkaðarins og ríkisstjórnir missa hluta af stjórntækjum sínum. Þetta hefur skapað umhverfi sem breiddist ótrúlega hratt út eftir um 1980. Allt hefur þetta spilað upp í hendur markaðsaflanna og sérstaklega upp í hendurnar á fjárfestum, sem eru mesta eignafólkið og hátekjuhópurinn. Nær allar rannsóknir á þróun tekju- og eignaskiptingar sýna að afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Það var komið á fyrirkomulag í heimshagkerfinu og í alþjóðapólitík sem að grunni til þjónaði fyrst og fremst hagsmunum hátekju- og stóreignafólks, en í vaxandi mæli skyldi millistéttina og lægri tekjuhópana eftir. Það er ekki það að hagvöxtur hafi hætt og allt hafi stoppað. Nei, nei, hagvöxtur hélt áfram en afrakstur hagvaxtarins rann bara upp á topp þjóðfélagsins og er enn í því farinu í sumum löndum. Þó að kreppan hafi sett svona smá bakslag í þessa þróun þá er sérstaklega áberandi í Bandaríkjunum að ójöfnuður er í dag jafnvel enn meiri en var fyrir kreppu – raunar meiri en nokkru sinni fyrr í því landi.“
Menningarpólitískur sigur ójöfnuðar
– Er sigur nýfrjálshyggjunnar ekki fyrst og fremst menningarpólitískur sigur? Það hefði verið óhugsandi á sínum tíma að menn gætu talað fyrir því sem sameiginlegu verkefni að moka undir hina ríkustu. „Jú, það tengist svolítið líka því að vinstri- og miðjupólitíkin var afvopnuð með því að nýfrjálshyggjuhagfræðin setti Keynesísku hagfræðina um blandaða hagkerfið til hliðar. Það var mikið óheillaspor því að það var meiri hagvöxtur á Keynesíska tímanum. Honum fylgdi meiri bati lífskjara allra. Nýfrjálshyggjan fer líka fram með mjög miklu áróðursstarfi, mjög öflugu kynningarstarfi og svo hjálpar prestastétt hinna óheftu markaðshátta til, þ.e. meirihluti hagfræðingastéttarinnar. Jafnvel bestu menn úr þeim hópi setja hinum óheftu markaðslausnum aldrei stólinn fyrir dyrnar, þeir horfa sjaldan á gallana á þeirri skipan. Þeir horfa til dæmis framhjá því hvernig óheftur fjármálamarkaður eykur alla áhættur og ráðstafar fjármunum í samfélaginu á hinn fáránlegasta hátt – auk þess að stórauka ójöfnuðinn í samfélaginu. Með þessu öfluga áróðursstarfi í þágu óheftra markaðshátta tókst að afvopna vinstrið og miðjuna. Þá missa menn sjálfstraustið og draga sig í hlé. Það er lítið spennandi að vera í tapliðinu. Ætli stærsti sigur nýfrjálshyggjunnar sé ekki einmitt sá, að sannfæra marga um að best sé að bæta hag almennings með því að moka sérstaklega undir þá allra ríkustu. Þetta er einmitt brauðmylsnukenningin sem er einfaldlega súrrealísk og almennt viðurkennd nú sem slík, m.a. af OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.“
Óheyrilegt vægi fjármagnstekna
– Þú hefur skrifað talsvert um eigna- og tekjuskiptingu áður en er eitthvað sem kom þér á óvart við að vinna bókina? „Það kom mér mest á óvart hvað vægi fjármagnsteknanna var gríðarlega mikið á Íslandi á áratugnum fram að hruni. Ég vissi að það var mikið og vaxandi. Ég hafði skrifað um það en þegar við fórum að fá samanburðargögn erlendis frá þá sáum við það að vægi fjármagnstekna á Íslandi var bara miklu meira en í öðrum löndum. Það tengist svo saman við það að notkun Íslendinga á erlendum skattaskjólum var líka með mesta móti. Þetta kjaraumhverfi fjármálageirans sem er alveg við hliðina á kjaraumhverfi þjóðarinnar, vinnumarkaðinum, kom mér á óvart. Sérstaklega hvað það var stórt og hvað stjórnvöld hafa búið þeim sem hafa fjármagnstekjur mikil fríðindi. Þó að það hafi dregið úr þeim fríðindum, vinstri stjórnin tvöfaldaði fjármagnstekjuskattinn, þá er hann samt enn lægri en í flestum OECD-ríkjum.“
Forgangsröðun til jafnaðar
While you may viagra uk slovak-republic.org not be able to stop using this coffee which is being marketed as Kamagra medication online, and you need to be sure that your heart is still able to have a very satisfying sex life in spite of matching them, you should learn to compromise for a happy relationship. A teenager steps into adulthood and his driving desires start to surface, but for this a patient has to undertake some measures related lowest prices on viagra to careful approach to swallow it. It comes in pleasant, fruity flavors such as strawberry, orange, banana, mint and many more order viagra usa flavors. Garlic levitra pill and onion are also very much helpful for treating the problem of hypertension. – Hvað er það sem skiptir mestu máli að fara í núna? „Þau stjórnvöld sem vilja leggja góðar og heilbrigðar línur fyrir framtíðina, og partur af framtíðinni á að vera að við séum með heilbrigðan samkeppniskapítalisma, en ekki einokunar-brask-kapítalisma eins og verið hefur. Til að það geti orðið þarf að ná einhverjum tökum á fjármálageiranum, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Það má ekki láta fjármálaöflin leika lausum hala áfram í nafni alþjóðavæðingar og einhverrar draumsýnar um óhefta markaði,“ segir Stefán og bætir við að varast verði kjaraþróun þar sem efsta lag samfélagsins tekur sífellt stærri og stærri sneið af kökunni, því það er hvorki sjálfbært né sanngjarnt. „Stjórnvöld þurfa heilmikið hugrekki til að taka á fjármálaöflum. Fjármálaöflin eru klók og þau eru með mikið af sérfræðingum í þjónustu sinni og hagsmunagæslu. Þetta er heimur sem fæstir skilja sem eru ekki inni í honum. Maður sá það til dæmis á vinstri stjórninni sem var hérna 2009-2013 að hún var alltof feimin við þessi öfl er hún stóð frammi fyrir þeim með hrunið bankakerfi, hún var feimin við að taka á þeim. Maður getur auðvitað alveg skilið það. Fullt af hagfræðingum eru hér sem segja að þú megir ekki styggja þetta og ekki hitt. Það þarf að hafa lánsmatshæfi og þú þarft að þóknast þessum öflum. Þau eru með viðmið alþjóðlega fjármálamarkaðarins, lánshæfi ríkisstjórna, sem á að stýra efnahagspólitík og velferðarpólitík í einstökum löndum. Við þurfum að spyrja hvort við séum tilbúin í að láta alþjóðlegan fjármálamarkað stýra stjórnmálunum í hverju landi fyrir sig. Stjórnmálin þurfa að vera fær um að stíga út fyrir þetta og bjóða þessum öflum birginn, án þess þó að ganga alveg frá þeim. Við eigum að fara leið blandaða hagkerfisins og megum ekki láta óheftan græðgis-kapítalisma taka alla forystu og öll völd. Þetta eru alvöru hagsmunaátök sem leysa þarf í þágu almannahagsmuna frekar en í þágu fámennrar yfirstéttar.“
Sérhannaðar refsingar gegn ungu fólki
– Hvað með praktískar leiðir? „Jú, eitt sem stjórnvöld geta gert er að styðja við kjarasamninga. Stjórnvöld eru iðulega aðilar að kjarasamningum hér, beint eða óbeint. Þau geta vel stutt við kjarasamningsleiðir sem að fela í sér meiri kjarabætur fyrir lægri hópa, í öðru lagi geta stjórnvöld lagt lið beint í gegnum skatta- og velferðarpólitíkina. Létt skattbyrðina af lægstu hópunum meira. Núna er verið að tala um að lækka álagningu í tekjuskattinum um eitt prósentustig. Það skilar flestum krónum til hærri hópanna. Ef þú hækkar persónuafsláttinn og skattleysismörkin þá skilar það sér í hlutfallslega meira mæli til lægri hópanna og það er pólitík sem stjórnvöld ættu að styðja,“ segir Stefán. „Sömuleiðis ættu stjórnvöld að styðja ungu kynslóðina sérstaklega með vaxta- og húsnæðisbótum. Við erum með húsnæðismarkað sem er með hæstu verð sem nokkru sinni hafa verið hér á landi, en þá eru vaxtabætur lægri en þær hafa nokkru sinni verið. Þetta er náttúrulega algjört glapræði. Það er eins og þetta sé sérhannað til að refsa ungu fólki, gera þeim erfitt um tækifæri til að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Í öðru lagi er það sama með barnabætur. Það er alltaf erfitt að byrja sinn feril og stofna fjölskyldu og koma sér upp húsnæði og öllu sem þarf fyrir fjölskyldur með börn. Þetta eru mjög skilvirkar leiðir sem stjórnvöld geta farið í til að auka jöfnuð og velmegun, með skatta- og velferðarstefnunni. Þetta er miklu praktískari pólitík en að veita fjárfestum sem eyða megninu af tíma sínum á golfvöllum út um allan heim sérstök skattfríðindi á sínar tekjur, fjármagnstekjurnar. Þá ættu stjórnvöld að minnsta kosti að skattleggja fjármagnstekjurnar jafnmikið og atvinnutekjur vinnandi fólks. Þetta geta stjórnvöld gert til að styðja við jöfnuð og það að hagvöxturinn skili sér til fjöldans en ekki mest til fámennrar yfirstéttar, eins og er í Bandaríkjunum. Það er bæði réttlæti og skynsemi sem mælir með þessu.“ Stefán bendir á að mælingar eftir mælingar sýni að átta af hverjum tíu Íslendingum telja ójöfnuð of mikinn hér á landi. Það sé því furða að hreyfingar almennings taki ekki á móti ójafnaðar-stjórnmálunum af meiri hörku en dæmin sýna.
Aðferðir sem virka
– Hér á Íslandi hafa verið farnar aðrar leiðir og í bókinni þinni þá sést að við förum úr miklum ójöfnuði í mikinn jöfnuð. Er það ekki alveg ljóst að þínu mati að það er vegna aðgerða yfirvalda; ekki einhverjar tilviljanir? „Jú, mikil ósköp. Jöfnuður næst fyrst og fremst vegna stjórnvaldsaðgerða og beitingu Keynesísku hugmyndanna um blandaða hagkerfið. Eitt af því var uppbygging velferðarríkisins eftir seinni heimsstyrjöld. Sú uppbygging hafði auðvitað bein áhrif á tekjuskiptingu alls staðar á Vesturlöndunum, sérstaklega í Evrópu en minna í Bandaríkjunum. Þar var minna sett í velferðarkerfið og jafnandi aðgerðir. Skattakerfið var líka meira jafnandi áður fyrr, beit fastar í hæstu tekjurnar.“ – Það er náttúrlega svakalegt að horfa upp á hvernig skattbyrði á lág- og millitekjufólks hefur verið hækkuð undanfarin ár, eins og hagdeild ASÍ sýndi nýlega og við erum með í ítarlegri umfjöllun í bók okkar Arnaldar Sölva. „Já, það er mjög undarlegt. Stjórnmálamenn nýfrjálshyggjunnar hafa troðið upp sem talsmenn skattalækkana. En þeir voru bara að lækka skatta á tekjuhæstu hópana um leið og þeir juku þá á lægri hópana. Þetta komust þeir upp með um tíma..“
– Þegar þú segir að þeir komust upp með það. Hverja áttu þá við? Hver lét þá komast upp með það? „Á áratugnum fram að hruni fannst mér eins og launþegahreyfingin hafi misst áttirnar á því hvað var að gerast. Hún horfði alveg fram hjá öllu því sem var að gerast í fjármagnsgeiranum og skattkerfinu. Hún gerði þjóðarsátt sem átti að snúast um hóflegar og svipaðar hækkanir fyrir alla. Hátekjufólkið stofnaði bara einkahlutafélög og breytti atvinnutekjum í fjármagnstekjur sem báru minni skatta. Það fólk var stikkfrí í þjóðarsáttinni, í öðru skattaumhverfi og braskgeira fjármálanna. Mér finnst launþegahreyfingin hafa misst fótanna í þessu. Hún lét það líka fara framhjá sér lengi vel að persónuafslátturinn í tekjuskattinum var að rýrna stórlega ár frá ári, 1995 til 2004, vaxtabæturnar sömuleiðis. Hreyfingin gerði bara lítið í þessu. Hreyfingin reyndi að knýja fram hækkanir fyrir þá lægst launuðu og stundum tókst það. Sú hækkun var svo bara étin upp með aukinni skattbyrði á láglaunahópa. Þetta er enn að gerast.“
– Er hægt að skrifa það á hreyfingu launafólks eingöngu? Hér hafa stjórnmálin í samráði við fjármálavaldið auðvitað verið efnislega að baki samkomulaga eins og þjóðarsáttarinnar. „Já og það sýnir líka að það er ekki nóg fyrir launþegahreyfinguna að knýja fram einhverjar kauphækkanir í kjarasamningum. Hreyfingin þarf að hafa eitthvað tangarhald á því að hvernig ríkið klípur svo til baka í gegnum skatta og velferðarkerfið. Ef þú færð kauphækkun á launum, sem duga vart til framfærslu, sem er bara tekin til baka með hærri skatti, þjónustugjöldum notenda og minni stuðningi velferarkerfis þá ertu í sömu og jafnvel verri stöðu en áður. Þetta er eins og menn eru að segja núna, það var samið um að lágtekjufólk myndi hækka á milli ára um tæp 6-7% en svo hækkaði skattbyrðin, barnabæturnar og vaxtabæturnar rýrnuðu og út úr því kom kannski eins prósents hækkun í staðinn fyrir þessi sex til sjö prósent sem samið var um.“
Ópólitísk launþegahreyfing
– Kannski óttast fólk að vera stimplað of pólitískt eða spyrt saman við ákveðna flokka ef kröfugerðin er að skatt- og bótakerfið sé nýtt til aukins jafnaðar? „Launþegahreyfingin er náttúrulega öflug á Íslandi, hefur mikla getu og hvað sem manni finnst þá er alveg ljóst að margt er vel gert á þeim vettvangi. Launamannahreyfingin er með það stóran hluta af launafólki innbyrðis og hún er á vaktinni með trúnaðarmönnum á vinnustöðum og er að gera mjög margt mikilvægt, það er engin spurning. Launamannahreyfingin gæti auðvitað gert meira að virkja sína eigin grasrót til lífs, en það er líka lítil í þátttaka í starfi stjórnmálaflokka. Í aðra röndina er hreyfingin náttúrulega með lifandi þátttöku í atvinnulífinu en í hina gæti hún verið með meiri virknil út í samfélagið. Þá er dálítill galli að hreyfingin geti ekki beitt sér pólitískt. Ég meina, atvinnurekendur eru ekki feimnir við að beita sér pólitískt. Þeir styðja Sjálfstæðisflokkinn mjög afgerandi og ákveðið og eru bara alla jafna í eigin hagsmunapólitík. Atvinnulífið segir stjórnvöldum hvað þau eiga að gera og allt það – jafnvel í hverri viku. Ef að launamannahreyfingin er tilneydd til að kúpla sig frá allri þátttöku á pólitískum vettvangi þá er hún að hamla sig. Það þarf ekkert að vera þannig að allir í launþegafélögum séu í sama stjórnmálaflokki eða styðji sama stjórnmálaflokk, en það sem að launamannahreyfingin á að berjast fyrir er kjarapólitík. Stjórnvaldsaðgerðir sem hafa áhrif á kjör vinnandi fólks, hvaða flokk sem þau kjósa. Menn geta beitt sér þegar atvinnurekendur leggja til að það séu lækkaðir skattar á fyrirtæki en hafa engan áhuga á að lækka skatta á vinnandi fólk. Þá finnst mér að launþegahreyfingin eigi að hafa áhuga á þeim málum og tala fyrir hag fjöldans. En ef það á að kúpla sig frá þeirri umræðu á þeirri forsendu að launamannahreyfingin sé ekki pólitísk, tengist ekki flokkum, þá náttúrulega er verið að bjóða upp á þær aðstæður að þeir semja um 6% kauphækkun en svo fari 5% af því í aukna skattbyrði, eða lægri fjölskyldubætur og minni húsnæðisstuðning. Það er bara hömluð kjarabarátta og léleg kjarapólitík. Launamannahreyfingin gerir margt mjög mikilvægt og merkilegt og er mjög þýðingarmikil hreyfing. Hún á ekki bara að vera í kjarasamningum hún á líka að vera í kjarapólitík, sem þó er ekki sérstaklega flokksbundin.“
Upphaflega birt í Blaði stéttarfélaga, apríl 2018