Unga kynslóðin hefur dregist aftur úr í tekjum á síðustu áratugum. Kaupmáttur hópsins hefur ekki aukist í samræmi við aðra hópa og raunar benda gögn til þess að beinlínis hafi dregið úr kaupmætti yngri aldurshópa frá því sem var um aldamótin síðustu og jafnvel í samanburði við 1990. Í það sem stefnir í lengstu samfelldu efnahagsuppsveiflu lýðveldissögunnar hafa yngri hópar orðið eftir þrátt fyrir aukinn kaupmátt og mikinn hagvöxt. Ofan á það hefur húsnæðisverð hækkað með ógnarhraða og fjármögnunarstuðningur dregist saman. Sé samfélagsleg staða hópsins skoðuð í samhengi við heilsu má sjá hátt hlutfall streitu, einmanaleika og óhamingju yngri hópa miðað við þá eldri. Stjórnmálaþátttaka hópsins hefur dregist hratt saman og ýmis merki eru um að menningarleg staða hópsins sé lakari en hinna eldri.
Tekjur yngsta hópsins hafa lækkað
Greiningadeild Arion banka fjallaði um stöðu ungs fólks árið 2016. Í umfjöllun bankans má finna sláandi niðurstöður sem meðal annars sýna að tekjur einstaklinga á aldrinum 16 – 29 ára hafa fallið verulega frá árinu 2000 og 2007. Þótt laun flesta hópa hafi staðnað eða falið eftir efnahagshrunið er yngsti hópurinn sá eini sem hefur lægri meðaltekjur í dag en árið 2000 og raunar svipaðar tekjur og árið 1990. Þá ýkist vandamálið vegna þess að laun þessa hóps jukust umtalsvert hægar en hjá öðrum hópum fram til ársins 2007. .
Setið eftir frá árinu 2000
Á 10. áratugnum var launaþróun fólks undir þrítugu áþekk því sem gerðist í öðrum aldurshópum. Upp úr aldamótum, þegar ráðstöfunartekjur tóku að vaxa enn hraðar, breikkaði bilið milli 16-29 ára og 30-64 ára um 2% á ári að jafnaði. Eftir að kaupmáttur féll í kjölfar fjármálakreppunnar snerist þróunin lítillega við en eftir að efnahagsbatinn hófst hefur hlutfallið haldist nokkuð stöðugt. Niðurstaðan er sú að síðan árið 2000 hafa tekjur fólks undir 30 ára aldri setið eftir.
Of lítið byggt
Á árinu 2016 var lokið við að byggja um 1.500 íbúðir á landinu öllu, þar af um 1.200 á höfuðborgarsvæðinu. Í báðum tilvikum hefur fjöldi fullgerðra íbúða aukist nokkuð á síðustu árum. Framleiðslan er þrátt fyrir það minni en verið hefur að meðaltali á undanförnum 30 árum. Miðað við langtímameðaltal er staðan örlítið skárri á höfuðborgarsvæðinu en fyrir landið í heild. Yfirleitt er talið að ljúka þurfi byggingu 1.800-2.000 íbúða á höfuðborgarsvæðinu til þess að svara þörfum vegna fólksfjölgunar og lýðfræðilegra breytinga. Það er því ljóst að mikið vantar upp á að því markmiði sé náð.
Öldrun þjóðarinnar
Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar frá árinu 2016 mun á næstu áratugum hægja á fólksfjölgun samhliða því að aldurssamsetning mannfjöldans á Íslandi breytist þannig að árgangar eldri kynslóða verða hlutfallslega stærri en árgangar yngri kynslóða. Þessi hröðun öldrunar, sem aðrar þjóðir ganga nú eða hafa gengið í gegnum, er nú þegar hafin hér á landi. Samkvæmt mannfjöldaspá mun fjöldi fólks á vinnufærum aldri, hér skilgreint sem 18 til 66 ára, fyrir hvern aldraðan einstakling lækka úr 5,4 í 4,6 á gildistíma fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir þessa þróun boðar fjármálaáætlun að ekki verði staðið við kosningaloforð um aukningu fjárframlaga til menntunar og heilbrigðismála. Þá setur áætlunin takmörkun á tekjuöflun ríkisins og lágmarkar fjárfestingu en greiðir þess í stað hraðar niður skuldir ríkisins.
„Það eru engar getgátur heldur köld staðreynd að ungt fólk sem hópur hefur það verra en aðrar kynslóðir sem þetta land byggja,“ sagði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í sérstökum umræðum Alþingis um stöðu ungs fólks sem fór fram árið 2016. „Tekjur ungs fólks hafa dregist saman samanborið við eldri kynslóðir og unga fólkið hefur ekki notið sömu kaupmáttaraukningar og þeir eldri.“ Ummæli ráðherra – sem var óbreytt þingkona í stjórnarandstöðu þegar umræðan fór fram – eru engar ýkjur. Í mars árið 2016 kynnti Bjarni Benediktsson, sem þá var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, skýrslu um stöðu aldamótakynslóðarinnar og samanburð á efnahagslegri stöðu ungs fólks á undanförnum áratugum, einskonar kynslóðareikninga. Megin niðurstöður skýrslunnar er að ungt fólk hefur dregist aftur úr líkt og jafnaldrar þeirra erlendis. Fólk á aldrinu 18 til 35 ára hefur lægri kaupmátt í dag en árið 1990. Fólk nær hámarkstekjum seinna á ævinni en áður. Tekjuávinningur menntunar hefur lækkað frá því sem var. Frá árinu 2004 hefur hlutdeild ungs fólks sem á eigin húseign lækkað og fasteignaverð hafði árið 2016 tvöfaldast frá því árið 1990 en raunverðið lækkað um helming á tímabilinu. „Sú staðreynd að fasteignaverð hefur hækkað verulega umfram ráðstöfunartekjur þessara aldurshópa bendir til að um þessar mundir sé greiðslubyrði lána ekki aðalvandamálið fyrir ungt fólk heldur öllu fremur getan til að safna fyrir útborgun, sem reynist erfiðari hjalli að yfirstíga,“ segir í skýrslunni.
It http://robertrobb.com/taking-grijalva-and-his-budget-seriously/ order cialis seems there’s no end to the very frustrating and confidence crushing problem of the erectile dysfunction drugs and, when you buy online, significantly cheaper than any equivalent herbal product. Treatment for this may range from simple shoe cheap cialis robertrobb.com and sock changes, to topical over the counter therapy. However, headache, facial flushing, temporary visual changes and nasal congestion have been observed in some people. http://robertrobb.com/are-democrats-serious-about-impeachment/ levitra samples In reality, it is not a true fact. cost of viagra
Alþingi óskaði eftir skýrslu um stöðu yngstu kynslóðarinnar í kjölfar ítarlegs greinarflokks breska blaðsins The Guardian þar sem sýnt var fram á að ungt fólk hefur dregist verulega aftur í efnahagslegu tilliti víða um heim. Aldamótakynslóðin hefur dregist aftur í tekjum, nýtur ábata efnhagsuppgangs í minna mæli en eldri kynslóðir, býr við minna starfsöryggi, nýtur minni ábata af menntun og hefur orðið hlutfallslega verr fyrir barðinu á niðurskurði á stuðnings- og velferðarverkefnum en eldir kynslóðir. Ísland var ekki meðal þeirra ríkja sem blaðið fjallaði um en niðurstaðan er þó sú þróunin hér á landi er í meginatriðum samskonar og í Evrópu og í Bandaríkjunum. Nokkrum vikum áður fjallaði í breska vikublaðið The Economist um stöðu ungs fólks í heiminum í leiðara. Blaðið gekk raunar lengra í túlkun gagnanna en The Guardian og sagði ungt fólk kúgaðan minnihlutahóp, sakaði eldri kynslóðir um fyrirlitningu gagnvart hópnum sem og að beita ríkisvaldinu, lögum og auði í þágu eigin kynslóðar og gegn ungu fólki.
Greiningardeild Arion banka fjallaði um niðurstöður Guardian og í stuttri grein þar sem gerð var tilraun til að skilja efnahagslega stöðu ungs fólks á Íslandi og spurt hvort íslensk ungmenni hafi verið jafn illa svikin af eldri kynslóðum og erlendir jafnaldrar. Niðurstaða bankans er í stuttu máli sú sama. Íslendingar á aldrinum 20 – 29 ára hafa ekki notið kaupmáttaraukningar í samræmi við aðra og búa almennt við erfiðari stöðu en jafnaldrar þeirra árið 1990 gerðu.
„Það er athyglisvert að hverfa aftur til ársins 1990 og velta fyrir sér stöðu ungs fólks,“ sagði Bjarni Benediktsson er hann ræddi stöðu ungs fólks árið 2016. Bjarni gerði lítið úr erfileikum hópsins og taldi stöðuna betri í dag; hann hefðu jú, verið ungur árið 1990. „Almennt ættu allir Íslendingar að hafa það mun betra í dag en á þessum samanburðarárum frá 1990. Um það verður varla deilt. Kaupmáttur hefur vaxið svo mikið, landsframleiðsla á Íslandi er svo miklu betri. Ímyndið ykkur allar umbætur sem við höfum gert í samneyslunni, í ýmsum stuðningskerfum. Mætti ég nefna sem dæmi, fyrst barneignir eru nefndar, að það var ekki til fæðingarorlof á þeim tíma í því formi sem við þekkjum í dag. Fæðingarorlofssjóður, rétturinn til töku fæðingarorlofs með þeim hætti sem við höfum tryggt í dag í lögum var einfaldlega ekki til staðar á samanburðartímanum. Samt segir fólk að staða ungs fólks sé verri í dag en hún var þá. Ég segi: Eitt helsta hagsmunamál ungs fólks er öflugt menntakerfi og geta þessa hagkerfis til að skapa ný, spennandi störf. Á Íslandi mælist atvinnuleysi í algjöru lágmarki, samkvæmt nýjustu tölum öðrum hvorum megin við 3%. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ungt fólk,“ sagði Bjarni. Rétt er að taka fram að fæðingarorlof var lögfest á Íslandi árið 1975 og var því til staðar árið 1990. Með endurskoðun laga um foreldraorlof árið 1989 varð orlofið sex mánuðir, þar af einn mánuður sem var fastur við móður en afganginn gátu foreldrarnir skipt á milli sín. Árið 2000 var svo komið á fæðingar- og foreldraorlofi þar sem feður fengu sjálfstæðan rétt og stofnaður fæðingarorlofssjóður.
Þegar Bjarni var tvítugur árið 1990 var fæðingarorlof vissulega styttra en í dag en þá hafði félagslega húsnæðiskerfið ekki verið lagt niður, efnahagslegur ávinningur menntunar var umtalsvert hærri, húsnæðisverð lægra og samkeppni um störf með öðrum hætti en í dag. Þrátt fyrir þá tilfinningu Bjarna að hann hafi haft það erfiðara árið 1990 en yngri kynslóðin í dag sýna fyrirliggjandi gögn að slíkar tilfinningar gefa ekki rétta mynd. Yngsti hópurinn hefur orðið eftir þegar kemur að því að njóta efnahagslegs ávinnings hagvaxtar, skilvirkni og tækniþróunar. Atvinnuöryggi er minna, hámarksktekjum nær fólk síðar á ævinni, húsnæðiseign hefur lækkað og ungt fólk býr lengur heima hjá foreldrum sínum, eignast börn síðar og er lengur í námi.
Að auki eru merki þess að menningarleg og pólitísk staða hópsins sé verri en fyrri kynslóða. Árið 2008 vann Alþýðusamband Íslands að mótun Stefnu sambandsins í málefnum ungs fólks. Í skýrslunni var gerð tilraun til að greina hug ungs fólks og gildismat. Í skýrslunni kemur fram að stór hluti ungs fólks telji mikilvægt að skapa jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Nauðsynlegt er talið að lengja fæðingarorlof í tólf mánuði, huga þarf sérstaklega að dagvistun barna og hið opinbera þarf að fara fram með stefnu þar sem ýtt er undir barneignir, fjölskyldumyndun og menntun. Í skýrslunni kemur fram að stórt hlutfall hópsins sé aðeins með grunnmenntun og eigi því erfiðara með því að fóta sig á breyttum atvinnumarkaði og nýta þau tækifæri sem eru til staðar. Lögð er áhersla á að auka aðgengi hópsins að endur- og starfsmenntun. Þá er bent á að „nýta verði velferðarkerfið í heild sinni til þess að jafna kjörin á milli kynslóða og létta á þunga framfærslubyrði ungra fjölskyldna.“ Þrátt fyrir þetta hefur á undanförnum árum gjarnan verið gripið til aðgerða sem ganga þvert á þessi markmið. Niðurskurður í velferðar- og menntamálum bitnar hlutfallslega verra á ungu fólki en fólki á miðjum aldri. Aðhaldi hjá leik- og grunnskólum er ungu barneignafólki erfiður og ýtir fólki í eignast börn síðar á ævinni. Aukið launabil milli starfsmanna og yfirmanna bitnar harðar á ungu fólki sem er ólíklegt til þess að vera í störfum sem krefjast meiri reynslu og lengri starfsævi. Hækkun fasteignaverðs bitnar harðar á ungu fólki sem er að reyna að komast á eignarbraut. Stífari lánakröfur bitna á yngra fólki í leit að sinni fyrstu íbúð. Hröð hækkun fasteignaverðs gerir ungu fólki erfiðara fyrir að safna sér fyrir útborgun og bitnar því harðar á þeim hóp. Skattalækkanir gagnast ungu fólki ekki með sama hætti og þeim eldri enda ungt fólk almennt með lægri tekjur og minni sparnað. Aðgerðir þar sem ungu fólki er ýtt í að eyða lífeyrissparnaði í fasteignakaup er mun kostnaðarsamari fyrir tvítuga einstaklinga en þá sem eru 35 ára enda verðmætasti sparnaðaurinn sá sem greiddur er fyrst á ævinni. Svona má lengi telja.
Jafnvægi vinnu og einkalífs hefur versnað hjá aldurshópnum 16 – 25 ára að undanförnu. Í gögnum Hagstofu Íslands sést að vinnuvikan hefur lengst mest hjá þessum aldurshóp og raunar tekið stökk frá árinu 2011. Ungmenni sem skráð voru í fullt starf árið 1990 unnu lengri vinnuviku en á árunum 1990 fækkaði vinnustundum hratt. Vinnuvikan styttist hratt til ársins 2003 þegar vinnutími þessa hóps hóf að lengjast aftur. Vinnuvika 25 til 55 ára styttist hins vegar hratt en hefur frá 2009 staðið í stað fremur en að lengjast. Í þessu samhengi má benda á ummæli Aðalheiðar Steingrímsdóttur, varaformanns Kennarasambands Íslands, við Fréttatímann er fjallað var um þá stefnumótun sem birtist í fjármálastefnu núverandi ríkisstjórnar. „Við hefðum til dæmis viljað sjá þarna ákveðnar aðgerðir til þess að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu. Lengingu á fæðingarorlofi þannig að það myndist ekki þetta erfiða tímabil hjá foreldrum með yngstu börnin vegna þess að þau komast ekki að hjá dagforeldrum eða á leikskóla. Svona atriði kæmu tvímælalaust ungum börnum og foreldrum til góða í samfélaginu.“ Og það hefði líka verið rík ástæða til þess í fjármálaáætluninni að byrja að stefna að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan. „Við hefðum til dæmis líka viljað sjá áætlanir um útgáfu námsgagna fyrir öll skólastigin, námsstyrki til handa nemendum á framhaldsskólastigi til að draga úr óhóflegri vinnu margra nemenda með námi, og að framhaldsskólanir væru opnaðir fyrir 25 ára nemendum og eldri.“ Vinnuvika ungs fólks hefur ekki aðeins aukist ein og sér. Sú þróun á sér stað meðfram lengri skólagöngu.
Árið 2012 vann Sigurður Þorri Gunnarsson, nemandi við Hug- og félagsvísindasvið Háskóla Akureyrar, lokaverkefni um almannaútvarp og ungt fólk. Sigurður leitaðist við að skoða þjónustu RÚV við fólk á aldrinum 15 – 29 ára. Hann bendir á að árið 1983 hafi krafa um fjölmiðil fyrir unga fólkið verið afar hávær og að Rás 2 hafi verið stofnuð í þeim tilgangi að afhenda nýrri kynslóð eigin fjölmiðil. Nú eru 35 ár liðin og þrátt fyrir umræðu bólar ekkert á því að ný kynslóð eignist eigin fjölmiðil. Þvert á móti hefur hlustendahópur Rásar 1 og Rásar 2 elst og elst án þess að sambærileg þjónustu ríkisfjölmiðilsins til handa aldamótakynslóðinni og þeim sem fæddir eru í kringum aldamótin taki við. Þau rök heyrast gjarnan að úrvalið í fjölmiðlun fyrir ungt fólk í dag sé langt umfram það sem hún var árið 1983. Þau rök takast þó ekki á við þann aðstöðumun milli kynslóða sem er afleiða þess að yngri kynslóði eigi sitt undir einkareknum miðlum sem verða eðli málsins samkvæmt að framleiða ódýrt skemmtiefni þar sem hlustendur er neytendur og söluvara fyrir auglýsendur. RÚV hefur þvert á móti það hlutverk að skemmta, fræða og greina. Markmið stofnunarinnar er lýðræðisleg sem og að ýta undir menningarlegan samhljóm.
Í ritgerðinni ræðir Sigurður við Ben Chapman, yfirmann dægurlagtónlistar hjá Radio 1, 2 og 6. Chapman lýsir því hvernig BBC starfar í þágu yngri hópa og setur sér stífar kröfur. Þrátt fyrir að Radio 1 spili vinsæla popptónlist og sé að mörgu leiti lík einkastöðvum þá sé dagskrárgerðin þar með öðru móti. Sigurður bendir á og hefur í einni ræðu eftir Chapman að Radio 1 reyni að vera „rödd unga fólksins í Bretlandi, vera menningarlegur leiðtogi þeirra“. Mikilvægt sé að framleiða efni sem fólk vill hlusta á en að áhersla sé lögð á upplýsingagildi um leið. „Þess vegna reynir Radio 1 að flytja fréttir eins og t.d. um kosningar, ástandið í efnahagsmálum o.s.frv. með þeim hætti að unga fólkið skilji þær og vilji hlusta. Einnig reyna þeir að tala um mikilvæg málefni sem snerta unga fólkið. Dæmi um það er umræðan um persónuvernd á Internetinu, en það er efni sem er mikið rætt og reynir þá Radio 1 að vera óháð rödd sem fræðir um hætturnar sem leynast þar. Annað dæmi eru umræður um eiturlyf. Þá reynir Radio 1 að vera með fræðslu um eiturlyf án þess að styggja hlustendur og fæla þá jafnvel frá.“
Í tengslum við ritgerðina gerði Sigurður spurningakönnun meðal ungs fólks. Vert er að taka fram að rannsóknin er hluti af lokaverkefni Sigurðar og afar vel unnin en varast skal að draga of víðtækar ályktanir út frá niðurstöðum. Hins vegar er verkefnið gagnlegur gluggi sem nýta má til að velta upp spurningum. Í könnuninni kemur fram að 98% svarenda segjast hlusta á útvarp með einhverjum hætti. Hér er átt við einstaklinga á aldrinum 15 – 29 ára. Á svörum þessa hóps kemur fram að 1% hlusti á Rás 1 en 8% á Rás 2. Langsamlega mesta hlustun er á FM957 eða 43%. Næst á eftir kemur Flass og X-ið. Vert er að staldra aftur við og nefna að tölurnar eru frá 2012. Sigurður bendir hins vegar á að stöðvarnar sem sérstaklega gefa sig út fyrir að þjóna ungu fólki eigi það sameiginlegt að spila nánast eingöngu tónlist en bjóði alls ekki eða í mjög takmörkuðu magni upp á sérþætti um pólitík eða samfélagsmál fyrir ungt fólk. Það er ástæða þess að vert er að íhuga niðurstöðurnar þrátt fyrir að þær séu komnar til ára sinna. Í skýrslu nefndar um starfsemi og rekstur RÚV frá árinu 2007 til ársins 2015. Má greina svipaða þróun í áhorfi yngri hópa. Skýrslan sem unnin var af Eyþóri Arnaldssyni fyrir Illuga Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, var gagnrýnd fyrir innihaldsleysi og slægleg vinnubrögð. Það ber því að taka niðurstöður hennar með fyrirvara en aftur má nota hana til að skilja ákveðna þróun.
Í þessu samhengi er vert að velta upp þeirri spurningu hvort langvarandi þróun í átt að minni stjórnmálaþátttöku ungs fólks geti að einhverju leyti tengst menningarlegri stöðu hópsins. Líkt og Chapman hjá BBC bendir á þá reynir Radio 1 að vera menningarlegur leiðtogi ungs fólks. Þjónusta hópinn vel og fjalla um mikilvæg samfélagsmál á þeirra forsendum. Spyrja má hvaða stofnun eða fjölmiðill hefur tekið sér þá stöðu hér á landi og hversu vel hann þjónustar hópinn í póitísku samhengi Íslands. „Landssamband æskulýðsfélaga hefur verulegar áhyggjur af samfélagsþátttöku ungs fólks á Íslandi, skorti á upplýsingum um þá þátttöku og andvaraleysi stjórnvalda í þeim málaflokki,“ segir í inngangsorðum skýrslu sambandsins um kjörsókn og samfélagsþátttöku fólks á aldrinum 18 til 29 ára. Skýrslan sem byggir á gögnum úr Íslensku kosningarannsókninni sýnir svo ekki verður um villst að þátttaka hópsins í kosningum hefur fallið umtalsvert hraðar en annarra hópa og beinlínis hrynur á árunum 2003 til 2007 en tekur kipp upp á við eftir hrun en helst enn lág. Skýrslan sem kom út árið 2013 dregur fram þátttöku í öðru starfi og ávalt er niðurstaðan á sömu leið. Í verkefni Reykjavíkurborgar Betri hverfi skrapar þátttaka hópsins botninn. Í samantekt Landssamband æskulýðsfélaga um fjárútlát ríkisins til æskulýðsmála sem birt var í lok árs 2012 vegna fjárlaga 2013 kemur fram að um 180 milljónum verði úthlutað til æskulýðsmála. Hins vegar kemur fram að því sem næst allt féð fari til starfssemi með börnum fram að 18 ára aldri. Það skal þó tekið fram að framlög til æskulýðsmála eru aðeins brot af framlögum til þjónustu við ungt fólk og börn. Þá er mikilvægt að fram komi að framlög til málaflokksins hafa snarhækkað miðað við það sem þau voru um aldamótin.
Upphaflega birt í Blaði stéttarfélaganna, Apríl 2017