Fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra og formanns Viðreisnar, stillir skattlagningu upp sem andstæðu frelsis í inngangstexta skjalsins. Sú hugmynd er hluti af kennisetningu nýfrjálshyggjunnar en í fjármálaáætlun er látið líkt og frelsi eigi enga samleið með skattheimtu. Hugmyndin sem nú birtist í fjármálastefnu næstu fimm ára er í samræmi við hugmyndir Pawel Bartoszek, þingmanns Viðreisnar, um að öll skattheimta sé ofbeldi. Uppstilling sem tilheyrir hvergi miðju stjórnmálanna.
„Stjórnvöld bera þá ábyrgð að velja milli skammtímahagsmuna og langtímahagsmuna, uppbyggingar og sparnaðar, skattlagningar og frelsis. Það er bjart framundan á Íslandi ef skynsamlega er að málum staðið. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar − jafnvægi og framsýni − bera þessu vitni, og um það fjallar þessi fjármálaáætlun,“ segir í áætluninni.
Ljóst er við lestur áætlunarinnar að ekki verður staðið við loforð Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála munu aukast úr 7 prósentum af vergri landsframleiðslu upp í 7,85 prósent á síðasta fjárlagaári ríkisstjórnarinnar ef fjármálaáætlun hennar gengur eftir.
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, lét það þó ekki stoppa sig heldur fagnaði með því að lýsa yfir 20% aukningu á fjárframlögum til heilbrigðismála. Þetta er blekking og er ekki í samræmi við það sem raunverulega kemur fram í plagginu. Raunin er sú að framlög til heilbrigðismála fara frá 7% af vergri landsframleiðslu til 7.85% í lok kjörtímabilsins.
Unnsteinn Jóhannsson, aðstoðarmaður Óttars Proppé heilbrigðisráðherra grípur til sömu framsetningar á Facebook.
Framsetning stjórnarliða er til þess gerð að gefa í skyn hraða og mikla hækkun rekstrarfés til heilbrigðismála.
Það er ekki raunin miðað við þá áætlun sem lögð var fram í dag.
Auk hugmynda um að kjósendur verði að velja milli frelsis og skatta inniheldur fjármálaáætlun umdeilt stefnumið um að tekjur hins opinbera aukist ekki umfram vöxt vergrar landsframleiðslu verður áfram við lýði samkvæmt fjármálaáætlun þrátt fyrir viðvaranir Seðlabankans og ríkisstjórnarskipti. „Stefnumiðið virðist því fyrirfram setja skorður við sjálfvirka sveiflujöfnun á tekjuhlið opinberra fjármála og fela í sér að ef hagvöxtur reynist kröftugri skuli gefa eftir tekjur.“ Ítrekað hefur komið fram gagnrýni á þessa stefnumótun en allt kemur fyrir ekki.
Birtist fyrst í Kvennablaðinu 31.03.2017