„Sé strax að hægriflokkarnir hafa ekkert lært og fara ekki eftir athugasemdum Seðlabanka og fjármálaráðs um mikilvægi sveiflujöfnunar sem felst í því að halda ríkistekjum háum í góðæri til að eiga borð fyrir báru þegar að verr árar,“ skrifar Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, í kjölfar kynningar á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára.
Það er ekki annað hægt en að taka undir orð Oddnýjar. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að í tveir þeirra flokka sem mynda stjórnarmeirihlutann telja sig tilheyra miðju pólitískra hugmynda en ætla þó að samþykkja fjármálaáætlun sem beygir sig undir kennisetningar dólganýfrjálshyggju.
Hvert eru íslensk stjórnmál komin þegar allt sunnan við Bjarna Benediktsson er orðin einhvers konar vinstrimennska? Þegar tjúllun nýfrjálshyggju er orðin undirliggjandi viðmið fimm ára fjármálaáætlunar ríkisstjórnar ‘miðjuflokka’? Þegar gildi Sjálfstæðisflokks eru grunnlínan þrátt fyrir að flokkurinn sé gjörsamlega á skjön við hugmyndir flestra um sanngirni.
Umdeilt stefnumið um að tekjur hins opinbera aukist ekki umfram vöxt vergrar landsframleiðslu verður áfram við lýði samkvæmt fjármálaáætlun þrátt fyrir viðvaranir Seðlabankans og ríkisstjórnarskipti. „Stefnumiðið virðist því fyrirfram setja skorður við sjálfvirka sveiflujöfnun á tekjuhlið opinberra fjármála og fela í sér að ef hagvöxtur reynist kröftugri skuli gefa eftir tekjur.“ Ítrekað hefur komið fram gagnrýni á þessa stefnumótun en allt kemur fyrir ekki.
Viðmiðið sækir upphaf sitt í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks en svo virðist sem hvorki Viðreisn né Björt framtíð geri athugasemd við slíka reglu. Seðlabankinn telur regluna beinlínis á skjön við sjálfvirka sveiflujöfnun í ríkisfjármálum. Ítrekaðar ábendingar gegn reglunni voru hunsaðar við setningu síðust áætlunar. Nú virðist hið sama í uppsiglingu enda reglan óbreytt inn í fjármálaáætlun Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eins og áður þegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stjórnuðu.
Að vanda marka spor Viðreisnar og Bjartrar framtíðar lítið sem ekkert í stjórnarsamstarfinu. Núverandi ríkisstjórn er í raun meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins. Viðreisn og Björt framtíð gætu allt eins framselt sætin sín til Valhallar.
Hér er um að ræða rétttrúnaðarstefnu frjálshyggju en ekki efnahagslegt brjóstvit.
Og að sjálfsögðu hlustar enginn… hvað þá að litlu flokkarnir tveir spyrni við fótum.
Það er líklega best að Bjarni ráði þessu bara…
Í umsögn Seðlabanka Íslands vegna fjármálaáætlunar Sjálfstæðismanna og Framsóknarflokks, sem inniheldur sömu reglu, fullyrðir bankinn að reglan ýti undir hagsveiflur fremur en að milda þær. Þá sé reglan andstæð tilgangi laga um opinber fjármál sem sett eru til að draga úr hagsveiflum og stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Það varð ekki til þess að hætt var við regluna þá og ekki heldur núna.
Seðlabankinn bendir á að almennt sé jákvætt samband milli framleiðsluspennu og frumtekna af vergri landsframleiðslu. Frumtekjur eru tekjur án óreglulegra liða og vaxtatekna. Ef hagvöxtur er meiri en gert er ráð fyrir í áætluninni mun hlutfall frumtekna að öllu óbreyttu hækka. Með stefnumiði er ríkisstjórnarinnar sé hins vegar snúið baki við slíkri sjálfvirkri sveiflujöfnun ríkisfjármála.
Með reglunni er því sem næst lögfest að ekki skuli sækja aukið fé í ríkissjóð í uppsveiflu til þess að geta brugðist við niðursveiflu með öðrum hætti en snörpum niðurskurði.
Áfram gakk… aftur til fortíðar! Hagsaga tuttugustu aldarinnar strokar sig ekki út sjálf.
Birtist fyrst í Kvennablaðinu 31.03.2017