Forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands virðist haldinn einhvers konar meinloku þegar kemur að föður nútíma þjóðhagfræði sem hann telur að heiti George en ekki John Maynard Keynes. Villuna má ítrekað finna í skrifum Ásgeirs Jónssonar, forseta Hagfræðideildar. Spurt hefur verið um George á prófi við Háskóla Íslands og nafn hans er að finna í kennslubókum sem og skýrslum eftir Ásgeir.
Málið vakti athygli nemenda nýlega þegar fjallað var um George Maynard Keynes í kennslutexta. Töldu einhverjir nemendur fyrst að hér væri um frænda John Maynard Keynes að ræða. Svo virðist þó ekki vera því litlar upplýsingar er að finna um George í sögubókunum.
Meinloka Ásgeirs hefur vakið athygli áður en félagsfræðingurinn Stefán Ólafsson benti á þetta í nýlegri bloggfærslu þar sem fjallað er um The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World’s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse, nýútkomna bók Ásgeirs og Hersis Sigurgeirssonar um endurreisn fjármálakerfisins og eftirstöðvar hrunsins. Stefán fer almennt nokkuð jákvæðum orðum um bókina en gerir meinlokuna að umfjöllunarefni. „Þá eru full mikil lausatök á heimildaskránni. Þar vantar til dæmis inn tvö rita John Maynard Keynes um fjármálakreppur og ríkisafskipti sem fjallað er um í texta, en einnig vantar þar rit eftir Milton Friedman sem við sögu kemur. Þá er Keynes kallaður “George” Maynard Keynes í atriðaskrá!“
Stefán nefnir atvikið þó sem einangrað dæmi. „Ég sé þó ekki ástæðu til að ætla að þessi meðferð á Keynes í heimildaskrá og atriðaskrá endurspegli neina fordóma höfunda í garð Keynes og fræða hans, enda gera höfundar árangri ríkisafskiptanna sem við sögu komu góð og sanngjörn skil í bók sinni. Bókin er að mörgu leyti lofgjörð til fjármálahagfræða sem eru í anda Keynes.“
Árð 2015 rituðu þeir Ásgeir og Hersir bókina Drög að uppgjöri fyrir slitastjórn Glitnis. Þar má finna stuttan texta um George. „Einn af ráðgjöfum bresku ríkisstjórnarinnar við gerð Versala-samninganna 1919 var hagfræðingurinn George Maynard Keynes. Keynes var mjög á móti niðurstöðu samninganna, einkum kröfunni um stríðsskaðabætur. Síðar þetta sama ár gaf hann út bókina The Economic Consequences of the Peace þar sem kom fram mjög hörð gagnrýni á téða samninga sem hann kvað að myndu skapa gríðarlegt ójafnvægi í alþjóðafjármálum.“
Upphafningu George er innan Háskóla Íslands er þó ekki lokið hér því árið 2015 voru nemendur við Háskólann spurðir um George sem samkvæmt prófinu eru á pari við Milton Friedman í heimi þekktra hagfræðinga. Prófspurning nemenda snérist um að greina á milli kenninga tvímenninganna.

John Maynard Keynes er faðir nútíma þjóðhagfræði og líklega þekktasti hagfræðingur heims ásamt Adam Smith. Þá má nefna að þá Milton Friedman og Friedrich Hayek sem hagfræðinga sem náð hafa frægð umfram fræðisamfélagsins ásamt Paul Krugman og Joseph Stiglitz sem á síðari árum hafa orðið nokkuð þekktir um allan heim.
George Maynard Keynes er að öllum líkindum ekki til eða hefur að minnst kosti ekki getið sér nokkurn stað í sögu hagfræðinnar. Keynes starfaði þó um tíma með Lloyd George, leiðtoga frjálslyndra í breska þinginu og fjármálaráðherra.
Ásgeir Jónsson var kjörinn deildarforseti Hagfræðideildar árið 2016 fram til sumars 2018 og tók við af Tór Einarssyni. Auk stöðu deildarforseta er Ásgeir umsjónarmaður meistaranáms í fjármálahagfræði við sömu deild. Þau verkefni sem Ásgeir hefur unnið að eru meðal annars tengd alþjóðafjármálum, peningahagfræði, hagsögu, orkuhagfræði, fasteignamarkaðinum, byggðahagfræði og almennri þjóðhagfræði.
Ásgeir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1990, BS prófi í hagfræði frá Hagfræðideild Háskóla Íslands árið 1994 og síðan doktorsprófi í hagfræði með áherslu á peningahagfræði, alþjóðaviðskipti og hagsögu frá Indiana University árið 2001.
Ásgeir hóf starfsferilinn sem hagfræðingur hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1994 og ritstjóri Vísbendingar árið 1995 þar til hann hélt utan til náms. Árið 2000 hóf hann störf hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og varð lektor hjá Hagfræðideild HÍ árið 2004. Hann tók við starfi sem aðalhagfræðingur Kaupþings í ársbyrjun 2004, var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings á árunum 2006-2008 og gegndi síðan sömu stöðu hjá Arion banka á árunum 2008-2011.
Fyrst birt í Kvennablaðinu 21.03.2017