Hindranir verða á vegi almenns launafólks sem sækja þarf rétt sinn. Í smærri samfélögum þar sem vald atvinnurekenda er umtalsvert víðtækara en í stærri byggðum bíða fólks jafnvel enn stærri áskoranir. Breytingar á kvótakerfinu sem heimiluðu framsal veiðiheimilda breyttu stéttapólitík á Íslandi. Kvótakerfið hefur aukið framlegð í sjávarútvegi en um leið styrkti kerfið útgerðarvaldið í sessi. Handhafar kvótans eru ekki lengur aðeins umsjónarmenn; í raun fara þeir með eigendavald. Sökum framsals geta þeir nú farið þegar það hentar og skilið íbúa plássins eftir án atvinnu með verðlausar eignir.
Réttarkerfi hinna ríku
Formlega er aðgengi allra að réttarkerfinu jafnt. Lág- og millitekjufólk á þó stöðu sinnar vegna talsvert erfiðara með að sækja mál fyrir dómstólum í tilfellum þar sem aðstoð stéttarfélaga er ekki í boði. Þá eru upphæðirnar að baki launum verkafólks oft svo litlar að kostnaðurinn við að sækja rétt sinn er hærri en krafan sjálf sem þó er gjarnan hátt hlutfall af tekjum einstaklingsins. Launþegi sem svikinn hefur verið um laun og þarf að sækja rétt sinn fyrir dómi verður fyrst að standa skil á sköttum og gjöldum launa sinna áður en hann getur nýtt afganginn til að ráða lögmann. Þá greiðir hann lögmanni til fulls með álögðum virðisaukaskatti. Launagreiðandi getur aftur á móti nýtt sér varnarkostnað til frádráttar frá skatti enda um rekstrarkostnað að ræða. Þessi aðstöðumunur virkar ef til vill ekki stórvægilegur á alla en er gott dæmi um þann aðstöðumun sem mætir launafólki sem leita þarf réttar síns.
Hjúalögin
Greint var frá því í október 2014 að Slippurinn á Akureyri hefði sumarið áður krafið starfsmann um tæpar tvær milljónir króna eftir að starfsmaðurinn vildi hætta störfum án þess að vinna uppsagnarfrest. „Eftir aðstoð stéttarfélags og með lögfræðiaðstoð ASÍ varð niðurstaðan að maðurinn sættist á fjárhagsskaða sem kostaði hann þó mörg hundruð þúsunda,“ segir í Akureyri vikublaði sem fyrst greindi frá málinu. Þá kemur fram að starfsmaðurinn segist ekki þora að tjá sig um málið af ótta við frekara efnahagslegt tjón fyrir sig og sína fjölskyldu. Hann starfaði sem suðumaður í Slippnum en sagði starfi sínu lausu í júní eftir að honum bauðst pláss á sjó. Trúnaðarmaður starfsmannsins segir, við Akureyri vikublað, að maðurinn hafi fyrst og fremst viljað flýta sumarfríi til að komast á sjóinn en hafi svo boðist til að vinna uppsagnarfrestinn. Sektin sé ekki í neinu samræmi við brotið. Þá gagnrýnir trúnaðarmaðurinn harðlega að vísað sé til laga sem séu að stofni til frá 18. öld.
Skref fram á við
Hjúalögin eru frá árinu 1928. Þau tilgreina réttindi og skyldur húsbænda og hjúa vegna vinnusambands. Raunar er tilgangur laganna að tryggja réttindi hjúa og margt í þeim gott. Húsbónda eru settar nokkrar skorður og má til að mynda ekki misþyrma hjúinu né leitast við að tæla hjúið til illverka eða lauslætis. Þá má húsbóndi ekki meiða freklega mannorð hjúsins eða bera því á brýn glæpi sem það er saklaust af. Hann má ekki stofna lífi og heilsu hjúanna í hættu að nauðsynjalausu, verður að greiða þeim laun, búa vel að þeim og bjóða næga fæðu. Við lestur laganna ætti flestum að vera ljóst að hér var um að ræða nokkra réttarbót frá vistarbandinu sem var í gildi þar til skömmu áður. Hjúalögin eru enn í gildi og eru því lagalegur hluti af nútíma vinnurétti. Hvort almenningur telji það réttmætt er pólitískt úrlausnarefni; ekki lögfræðilegt. Í hjúalögunum segir: „Ef hjú, án þess að sjúkleiki eða önnur lögleg forföll tálmi, eða fyrir hendi séu ástæður, er heimilt því að rifta vistarráðunum, kemur ekki í vistina á ákveðnum tíma, svo að því er synjað viðtöku eða kemur alls ekki, skal það greiða húsbónda bætur, sem svarar til helmings áskilins kaups fyrir umsaminn vistartíma. Ef hjú gengur ólöglega úr vistinni, greiði það sömu bætur, miðað við vistartímann, sem eftir er.“ Ákvæði sem þetta gefur vinnuveitanda þannig heimild til að sækja bætur frá starfsmanni sem ekki klárar sinn samning.
Vildu tvær milljónir
Allt bendir til þess að Slippurinn hafi reiknað sitt meinta tveggja milljóna króna tjón á þeim forsendum að hægt hefði verið að selja manninn út á hámarksverði á meðan hann vann út uppsagnarfrestinn. Þórarinn Hjartarson, trúnaðarmaður starfsmanna Slippsins, sagði opinberlega að sektin væri í engu samræmi við brot mannsins. Hann gerir athugasemd við notkun lagabókstafsins bæði á þeim forsendum að hann telji óeðlilegt að vitna til laganna sjálfra sem og að hann telji atvikið ekki geta talist brotthvarf úr vinnu. Maðurinn hafi boðist til að vinna út uppsagnarfrestinn en koma hefði þurft til móts við hann með því að færa til sumarfríið. „Ég tel ekki að þetta geti kallast brotthlaup úr vinnu vegna þess að starfsmaðurinn bauðst til að vinna uppsagnarfrestinn eftir þennan túr á sjónum. Ég veit ekki betur en það hafi alltaf legið fyrir. Brotið, frekar en að vera brotthlaup, var þess vegna fremur einhliða færsla á sumarfríi eða fyrirvaralaus taka sumarfrís. Ég segi þó ekki að þarna hafi ekki verið framið brot, því þessi mál eiga að vera samkomulagsatriði milli aðila en ég tel sektina úr öllu samræmi við brotið,“ sagði Þórarinn við Akureyri vikublað vegna málsins.
Vistarbandið
Þótt vissulega virðist hjúalögin forneskjuleg í nútímanum voru nýju lögin töluvert skref fram á við frá kerfi vistarbands. Íslenska útgáfa kerfisins á uppruna sinn að rekja til Danmerkur og kallaðist stavnsbånd. Það var sett á árið 1733 eftir þrýsting frá voldugum landeigendum sem vildu tryggja bændum ódýrt vinnuafl. Stavnsbånd var ógilt árið 1788 en ekki aflagt að fullu fyrr en 1800. Vistarbandið var kvöð um að allt jarðnæðislaust fólk skyldi vera í vinnumennsku. Ef karl og kona réðu ekki eigin búi urðu þau að vera vinnuhjú á heimili bónda og eiga þar grið. Venjubundið var að vinnuhjú réðu sig til árs í senn. Samkvæmt Píningsdómi 1490 var lágmarksstærð bús þrjú kúgildi. Ef einstaklingur réði ekki slíkri eign, var eini löglegi valkostur hans eða hennar að verða vinnuhjú. Hægt var að losna undan vistarbandi með því að gerast lausamaður. Þeir réðu sér sjálfir og gátu selt vinnu sína. „Þeir sem fengu leyfi til lausamennsku urðu að uppfylla ströng skilyrði fyrir slíku frelsi. Þetta voru nær ávallt karlar og fram til 1783 urðu þeir að eiga minnst tíu kúgildi, eða rösklega þrisvar sinnum meira en sem kostaði að stofna eigin bú! Eigi að síður var öll lausamennska bönnuð 1783-1863 og var lausamönnum gert að stofna annaðhvort eigið bú eða ráða sig í vist, það er fara undir vistarband. Lausamennska var aftur leyfð 1863 en einnig nú með ströngum skilyrðum og það var fyrst með nýjum lögum 1894 í kjölfar vaxandi sjósóknar í landinu að lausamennska fór að verða flestu búlausu fólki aðgengileg,“ segir á Vísindavef Háskóla Íslands. Íslendingar voru töluvert lengur að afnema vistarbandið en danskir frændur þeirra. Fyrirbærið er að sjálfsögðu ekki séríslenskt. „Hins vegar sérstakt var hve stór hluti þjóðarinnar bjó í ófrjálsu einlífi vinnumennskunnar, eða að jafnaði um 25% landsmanna alla 19. öldina, sem var alla vega Evrópumet í þá daga, ef ekki heimsmet!“ segir enn fremur á Vísindavef Háskólans. Þau rök eru gjarnan færð fyrir kerfi vistarbands að með því hafi landlausu fólki verið tryggður griðastaður.
Lagabálkur og samfélagið
„Vistarbandið leystist nú smám saman upp en það er ekki fyrr en upp úr aldamótum 1900 sem vistarbandið var í raun lagt af,“ segir Sigurður Pétursson sagnfræðingur. Sigurður hefur fjallað nokkuð um sögu stéttabaráttunnar hér á landi. Hann vinnur nú að sögu stéttabaráttunnar á Vestfjörðum sem ber heitið Vindur í seglum. Nýlega kom annað bindi bókaraðarinnar út en sú fyrsta fjallar meðal annars um tímabilið sem markaði endalok vistarbandsins. „Það var Skúli Thoroddsen sýslumaður sem barðist í þessu eins og fleiri málum er varða réttindi alþýðunnar. Hann var einnig með lagafrumvarp um að það ætti að greiða laun í peningum en ekki vöruúttektum. Það var auðvitað mikil réttarbót. Um sama leyti var byrjað að létta á vistarskyldunni. Ég á við að mörkin voru smátt og smátt lækkuð. Þannig að fleiri og fleiri áttu möguleika á að kaupa sér lausamennskubréf. Í raun var þetta samt löngu orðinn dauður lagabókstafur vegna þess að frá 1880 til 1910 fór vinnuaflið mjög mikið til sjávarsíðunnar. Bæirnir voru að vaxa og vélbátabyltingin ríður yfir. Íslensk togaraútgerð fer svo af stað. 1905 kemur fyrsti íslenski togarinn og upp úr því fer að fjölga störfum í sjávarútvegi. Í raun var ekkert farið lengur eftir þessum gömlu lögum,“ segir Sigurður en bætir svo við að hreppsómagar hafi þó þurft að láta þetta yfir sig ganga. „Þegar fólk varð bjargarlaust og gat ekki séð fyrir sér. Þá var alltaf hægt að senda það heim á sinn fæðingarhrepp. Það eru í raun og veru leifar af þessu gamla skipulagi sveitasamfélagsins.“
Lénsveldi nútímans
Hér á landi er fiskveiðum stýrt með aflamarkskerfi sem í daglegu tali er kallað kvótakerfið. Kerfið var lögfest með lagasetningu árið 1983 og tók gildi árið eftir. Alla tíð hefur kerfið verið afar umdeilt og raunar verið eitt helsta bitbein íslenskra stjórnmála áratugum saman. Árið 1990 voru gerðar nokkrar breytingar á kerfinu sem heimiluðu frjálst framsal kvótans. Gagnrýnendur kvótakerfisins hafa bent á að kerfið sé í raun nútíma lénsherrakerfi sökum þess hve mikið vald safnast á fárra hendur með úthlutun kvóta – byggt á veiðireynslu frá níunda áratugnum. Félagslegar afleiðingar kerfisins eru gríðarlegar og sést hvað best á smáum fiskvinnsluþorpum sem misst hafa verulegan hluta af aflaheimildum frá því sem áður var. Flateyri er dæmi um slíkt þorp. Þar hefur nánast viðstöðulaust hallað undan fæti atvinnulífsins eftir að frjálst framsal kvóta var heimilað. Þar ber að nefna að Hinrik Kristjánsson seldi, sumarið 2007, kvótann frá bæjarfélaginu og fluttist til Garðabæjar. Með sölunni hvarf 90% af kvóta Flateyrar burt úr plássinu. Síðan þá hafa ýmsar tilraunir verið gerðar til að blása lífi í atvinnu á Flateyri. Oft með ágætum árangri en erfiðlega gengur að festa fyrirtækin í sessi. Aðstöðumunur þeirra sem eiga kvóta og þeirra sem leigja er slíkur að samkeppnin telst vart sanngjörn. Morgunblaðið – eitt fjölmiðla – notaði árum saman hugtakið “lénsveldi” yfir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Blaðið hefur breytt nokkuð um tón á síðari árum. Júlíus Sólnes, þingmaður Borgaraflokksins, sagði árið 1987 í umræðum vegna fyrirhugaðra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu, að á Íslandi væri búið að taka upp nokkurskonar lénsgreifaskipulag þar sem sérvöldum hefði verið gefin réttindi til veiða. Þeir héldu að sjálfsögðu fast í þau réttindi. Þau gengju svo í arf kynslóða milli kynslóða rétt eins og lénin í Evrópu. Steingrímur J. Sigfússon, þá þingmaður Alþýðubandalagsins, sagði orðrétt um kerfið: „Lífsbjörgin getur þannig siglt burtu eða verið keypt burtu á einni nóttu þess vegna frá heilu byggðarlagi.“
Hreppaflutningar
Árið 2014 var áminning um hve harkalega byggð utan höfuðborgarsvæðisins hefur mátt finna fyrir breytingunum sem fylgdu kerfinu og þá sérstaklega framsalsréttinum. Vísir hf. komst í fréttirnar snemma á árinu er yfirmenn fyrirtækisins tilkynntu að til stæði að flytja alla starfsemi félagsins til Grindavíkur en félagið er með höfuðstöðvar þar þótt útgerðarsaga Vísis sæki uppruna sinn til Þingeyrar. Í kringum 300 manns starfa hjá félaginu sem rak meðal annars starfsstöðvar á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík auk Grindavíkur. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að á hverri starfsstöð starfi um 50 manns. Endurskipulagning félagsins er því töluverður biti fyrir hin smáu samfélög sem missa störfin. Vísir hefur undanfarið ár unnið að flutningi starfa og tækja en með fyrirtækinu fara veiðiheimildir þorpanna og eftir stendur veikari byggð. Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á 5% hlut í félaginu sem er fjölskyldufyrirtæki stofnað af föður hans. Páll Jóhann er yfirlýstur stuðningsmaður kvótakerfisins og hefur hreykt sér af því að vera á þingi fyrir hönd útgerðarmanna. „Ég er búinn að lýsa því yfir, meira að segja úr pontu Alþingis, að ég sé bara fulltrúi útgerðarmanna,“ sagði Páll Jóhann í ávarpi á aðalfundi LÍÚ – sem nú heitir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS – árið 2013. Páll gekk lengra og bauð útvegsmönnum þjónustu sína sem milligöngumaður við sjávarútvegsráðherra. „Páll sagðist oft fá smáskilaboð frá útgerðarmönnum um slægingarstuðla sem hann áframsendi til ráðherra. Þá sagði hann embættismenn í ráðuneytunum heilaþvo ráðherra og að þingmenn hefðu of lítið með þessa hluti að gera. „Það er einhvern veginn þannig – þótt ég megi ekki segja það en það bara vita það allir – þetta er opinbert leyndarmál að við alþingismenn við erum ekkert, við fáum allt of lítið að koma að þessum málum. Það eru þessir embættismenn og ráðherrarnir, þeir náttúrlega koma inn í þessi ráðuneyti og fá fleiri en eitt og fleiri en tvö. Þeir eru náttúrlega heilaþvegnir alveg með það sama nema þeir hafi þeim mun meiri þekkingu,““ segir í lýsingu tímaritsins Skástrik af fundinum. Með brotthvarfi Vísis frá Þingeyri leggst fiskvinnsla nánast af á staðnum. Við það bætast svo breytingar á bolfiskvinnslu á Flateyri. Þess skal getið að Þingeyri og Flateyri mynda að einhverju leyti sama atvinnusvæði og eru bæði hluti af Ísafjarðarbæ.
Skeytingarleysi gagnvart fólki
Á fundi trúnaðarráðs Verkvest – Verkalýðsfélag Vestfjarða nýlega var fjallað um stöðu atvinnulífs á Flateyri og Þingeyri sökum breytinganna. Þar var núverandi fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar lýst sem nútíma vistarböndum. „Skeytingarleysi gagnvart landverkafólki og minnkandi atvinnuöryggi er grafalvarlegt mál og furðulegt að ekki skuli vera gripið til markvissra leiða til að koma í veg fyrir flutning aflaheimilda. Samfélagslegri ábyrgð er kastað fyrir róða og skammtíma gróðasjónarmið látin ráða,“ segir á vef félagsins. Þá lýsir trúnaðarráð félagsins stjórnvöld ábyrg fyrir þeim áföllum sem dunið hafa yfir störf í sjávarútvegi undanfarin misseri. „Landverkafólk hefur ekkert til saka unnið sem réttlætir að vera sett í nútíma vistarbönd kvótaeiganda,“ segir í ályktun félagsins. Í tilfelli Vísis eru stjórnvöld ekki aðeins ábyrg sökum aðgerðaleysis heldur eins og áður segir er fulltrúi meirihlutans eigandi og þar af leiðandi beinn gerandi í flutningnum. Það skal tekið fram að Vísir kom starfsfólki sem flutti milli þorpa til aðstoðar og hefur raunar fengið hrós fyrir hvernig staðið var að flutningunum. Þrátt fyrir það verður vart horft fram hjá þeim alvarlegu afleiðingum sem samþjöppun aflaheimilda hefur haft á smærri sjávarbyggðir. Þann 1. september árið 2014 hófu 62 starfsmenn Vísis, sem áður höfðu starfað á Húsavík og Djúpavogi, störf í Grindavík.
It is because not only the elder man but the young one also facing sexual cialis price issue like erectile dysfunction. Once the PDE5 is blocked, the chemicals that purchase of viagra promote erection remain in the penis for a longer enough times to finish his sexual desire then it demands for treatment. About 80% individuals sildenafil 50mg have reported this treatment safe and have made also. Pineapple is a rich source of vitamin C and improves blood flow to the reproductive cost viagra organs.
Útgerðarvaldið
Óttinn við að handhafar kvótans færi aflaheimildir úr sveitarfélaginu getur haft lamandi áhrif á samfélög. Nýlegt dæmi frá Bolungarvík er áhugavert í því ljósi. Skömmu fyrir jól greindi blaðið Vestfirðir frá því að loforð til sjómanns um pláss á togara í eigu Jakobs Valgeirs Flosasonar, útgerðarmanns í Bolungavík, hefði verið afturkallað vegna Facebook-færslu frá aðila sem Jakob Valgeir taldi að tengdist sjómanninum. Málið vakti mikla athygli en svo fór að sjómanninum var boðin staða af Jakobi Valgeir sjálfum sem afturkallaði eigin afturköllun á starfi. Færslan sem útgerðarmaðurinn valdamikli var ósáttur við varð tilefni til fréttar á vef DV. Jakob Valgeir hafði lagt það í vana sinn að leggja í stæði ætluð fötluðum. Í nóvember náðist mynd af kauða sem varð tilefni að frétt. „Það eru engin stæði laus fyrir þá sem eru ekki hreyfihamlaðir,“ sagði Jakob í samtali við DV á sínum tíma vegna málsins. „Þetta er ekkert í fyrsta skipti, þetta er örugglega í tuttugasta eða þrítugasta skiptið eða eitthvað sem ég legg akkúrat þarna.“ Mál Jakobs Valgeirs er gott dæmi um hið mikla vald sem útgerðarmenn í litlum plássum geta haft ef ekki er veitt mótspyrna. Tilvik Jakobs Valgeirs er í raun sérstakt fyrir það að nýtt héraðsblað, Vestfirðir, gerði málinu skil. Það veitti aðhald. „Töluvert hefur gengið á vegna málsins,“ sagði Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri Vestfjarða, í samtali við MAN. Hann sagðist hafa vissu fyrir fréttinni. Raunar hafi forsvarsmenn útgerðarinnar dregið örlítið í land.
Grímsey að blæða út
Nýlega varð atvinnuástand í Grímsey að fréttamat en þar er staðan afar alvarleg sökum skuldastöðu útgerðarinnar á eyjunni. Í Grímsey hefur Íslandsbanki um skeið lengt í lánum útgerðarmanna sem eiga helstu veiðiheimildir sem nýttar eru í eyjunni. Nú er komið að skuldadögum. „Hefur bankinn samkvæmt heimildum blaðsins talað fyrir sölu kvóta til að fá lán endurgreidd. Ef það gengur eftir gæti staðbundin búseta íbúa sem byggja veru sína í eynni á sjávarútvegi farið í uppnám,“ segir í frétt Akureyri vikublaðs af málinu. Árin 2005-2006 seldi stærsti kvótaeigandinn í Grímsey miklar veiðiheimildir og hætti útgerð. Aðrir brugðust við með því að kaupa aflaheimildirnar, ekki bara hans eigin heldur fleiri. Voru kaupin að mestu leyti fjármögnuð með lánsfé. Þegar kvótaskerðing átti sér stað árið 2007 fór að halla undan fæti. „Það sem gæti riðið baggamuninn nú hvað varðar framtíð sjávarútvegs er að upp kom kynferðisbrot þar sem gerandi tengist útgerð í eynni. Heimamenn segja að sá maður eigi ekki afturkvæmt til Grímseyjar. Ef heimamenn eða þeir sem vilja áfram útgerð í Grímsey hafa ekki burði til að kaupa kvóta brotamannsins og halda í eynni gæti það haft mikil áhrif,“ segir í frétt blaðsins. Málið er merkilegt fyrir það hve glöggt það sýnir valdaójafnvægið sem fiskvinnslufólk og íbúar smærri byggða þurfa að takast á við til að viðhalda atvinnu í byggð. Þá sýnir málið glöggt hve vald útgerðarmanna verður allt um lykjandi við þessar aðstæður. Í tilviki Grímseyjar var mikið magn kvóta selt af eyjunni árið 2006. Aflaheimildir voru verðmetnar hátt á þeim tíma og því mikil freisting fyrir þá sem áttu að selja en um leið rándýrt fyrir byggðina að bregðast við. Þeir sem eftir voru, aðallega þrír aðilar, ákváðu í kjölfarið að kaupa heimildir til að halda atvinnu í byggðinni. Árið 2007 – árið eftir kaupin – voru heimildir í þorski skertar úr um 190 þúsund tonnum í 130 þúsund tonn með einu pennastriki. Eftir það kom hrunið sem gerði smærri útgerðum afar erfitt fyrir þótt gengislækkun krónunnar og hækkandi verð á fiski erlendis hafi rýmkað mjög rekstrarskilyrði sjávarútvegs á Íslandi. Hér sést því glöggt hve samkeppnisskilyrðunum er gjarnan staflað gegn minni byggðum. Sérstaklega þeim sem ekki eiga mikinn kvóta.
Valdið yfir íbúum
Í Grímseyjarmálinu birtist líka annars konar vald – staða kvótahafa í samfélagi sem á næstum allt sitt undir því að aflaheimildirnar verði á staðnum. Í því samhengi er átakanlegt viðtal í blaðinu við Valgerði Þorsteinsdóttur, nema við Verkmenntaskólann á Akureyri, þar sem hún lýsir kynferðislegri misnotkun frá hendi einstaklings sem tengist útgerð á eyjunni. Valgerður lýsir því hvernig brotin hófust þegar hún var 14 ára. Valgerður segist hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna ofbeldis sem hún varð fyrir að hálfu manns „sem naut mikillar virðingar í Grímsey.“ Hún lýsir tengslum mannsins og barna hans við fjölskyldu hennar. Tengsl sem hann hafi nýtt og misnotað. „Það var traust á milli okkar vegna tengslanna. Hann misnotar þetta traust, ég fann mjög fyrir hans valdi. Hann misnotar stöðu sína.“ Í upphafi viðtalsins er bent á að hin meintu brot gegn Valgerði séu ef til vill einnig brot gegn samfélaginu. Samfélagslegar afleiðingar kunna að verða nánast fordæmalausar ef allt fer á versta veg í Grímsey. Viðtalið er spegill á það sem í almennum stjórnmálaumræðum um kvótakerfið hefur verið kallað lénsveldi kerfisins. Útgerðarmenn verða því sem næst ósnertanlegir í samfélögum sem eiga allt sitt undir velvild þeirra. Hér skal ekki fullyrt um of um brotin né hvort, og þá hvernig, gerandi beitti beinlínis valdi sínu sem handhafi aflaheimilda. Í máli Valgerðar kemur glöggt fram að gerandinn naut trausts í skjóli vensla. „Grímsey er lítið samfélag og eins og ég hef upplifað þetta frá því að ég man eftir mér, þá er það heiður hússins sem skiptir flest fólk í eyjunni máli,“ segir Valgerður.
Þorp í gíslingu
Árið 2012 var Samherji til rannsóknar hjá Seðlabanka Íslands vegna gruns um gjaldeyrislagabrot. Rannsóknin sneri að meintri undirverðlagningu Samherja á sjávarafurðum í tengslum við dótturfélög fyrirtækisins. Samherji er ekki aðeins stórt útgerðarfélag á íslenskan mælikvarða, samstæðan er með stærri útgerðarfyrirtækjum Evrópu. Skömmu eftir húsleitina tilkynnti þýska fyrirtækið Deutsche Fischfang Union (DFFU) að tímabundið yrði öllum viðskiptum við íslenska lögaðila hætt vegna rannsóknarinnar. Ítrekað og opinberlega sögðu forsvarsmenn Samherja að ákvörðun fyrirtækisins væri mjög skaðleg fyrir lífsviðurværi fiskvinnslufólks á Dalvík. Þeir hörmuðu atvikið og gagnrýndu Seðlabankann fyrir óbilgirni við rannsóknina. DFFU er dótturfyrirtæki Samherja og raunar stýrt frá skrifstofu félagsins í Reykjavík. Með öðrum orðum var ákvörðunin um að stöðva viðskiptin, sem að sögn talsmanna Samherja bitnuðu svo verulega á Samherja, tekin af þeim sjálfum. Tilgangurinn var pólitískur og ætlunin að stilla Seðlabankanum sem eftirlitsaðila upp við vegg.
Tímabundin stöðvun innflutnings á hráefni til Íslands átti samkvæmt ummælum yfirmanna Samherja í fjölmiðlum að hafa gríðarleg áhrif á starfsemi félagsins á Dalvík. Rúmlega hundrað stöðugildi eru í vinnslu Samherja í bænum en íbúar eru um 1.400. „Samherji er þarna með líf heils sveitarfélags í eigin höndum,“ sagði Páll Ásgeir Davíðsson, forstöðumaður Eþikos – miðstöðvar Háskólans í Reykjavík um samfélagsábyrgð fyrirtækja, þegar málið var til umfjöllunar. Fjallað var um siðferðilega hlið málsins í DV árið 2012. Páll benti þá á að Samherji hafi sent ákveðin skilaboð til íbúa Dalvíkur með því að hefja starfsemi þar. Fyrirtækið er að mati Páls raunar að hvetja til þess að íbúar og yfirvöld á staðnum byggi upp stoðir samfélagsins með starfsemi sinni á staðnum. Hann bendir á staðal sem unnið er eftir við mat á samfélagslegri ábyrgð. „Félög eiga ekki að heimila fulltrúum sínum að beita ótilhlýðilegum áhrifum og forðast hegðun á borð við baktjaldamakk, ógnun og nauðung, sem getur grafið undan hinum almenna pólitíska framgangi mála,“ segir í ramma Alþjóðlegu staðlastofnunarinnar, ISO, um samfélagslega ábyrgð.
Sama dag og Samherji tilkynnti í nafni DFFU að öll viðskipti yrðu stöðvuð og kveinkuðu sér svo yfir afleiðingunum í nafni Samherja fjallaði fréttastofa Ríkisútvarpsins um málið og hefur eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, að fyrirtækið muni ekki endurskoða ákvörðunina fyrr en upplýsingar sem Samherji hafði krafist fáist frá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans. Aðspurður hvort hér sé yfirvöldum stillt upp við vegg segir Þorsteinn það af og frá. DFFU-málið er með skýrari dæmum um tilraunir íslensks útgerðarvalds til að beita fyrir sig plikt landvinnslufólks í pólitískri hagsmunaskák. Vert er að vitna til yfirverkstjóra Samherja á Dalvík sem í samtali við Morgunblaðið lýsti mögulegum afleiðingum ákvörðunarinnar á samfélagið á Dalvík. „Þetta er ekkert flókið í mínum huga; ef þetta stendur og við verðum af þessum 3.500 tonnum þá er þetta bara rothögg fyrir okkur.“ Áhrifin á byggðina urðu vitanlega ekki jafn mikil og menn vildu vera láta í fjölmiðlum en eftir stendur að aðilar með mikil völd, áhrif og lífsviðurværi stórs hluta íbúa í hendi sér, sáu ekkert því til fyrirstöðu að hjóla í Seðlabanka Íslands. Stofnun sem margir myndu ætla að standi nokkuð sterkari gagnvart útgerðarvaldinu en landvinnslufólk á Dalvík.
Útgerðarmenn í stríði
Árið 2012 var ár aðgerða hjá útgerðarmönnum en þá var hart tekist á um stjórn fiskveiða. Hagsmunagæslusamtök þeirra, LÍÚ, blésu til mikillar herferðar um allt land. Samtökin gagnrýndu stefnu stjórnarflokkanna harkalega, kostuðu auglýsingaherferð og funduðu um allt land. Barátta útvegsmanna átti sér ýmsar birtingarmyndir. Þannig vakti það kátínu og hlátur þegar greint var frá því að Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, hefði haldið uppi mynd af börnunum sínum á opnum fundi og varað við breytingunum. Alvarlegri aðgerð var þó hvatning LÍÚ til félagsmanna sinna að skipum yrði haldið frá veiðum í mótmælaskyni við fyrirhugaðar breytingar. Við tóku átök sem eiga sér fáar hliðstæður – en eru þó ekki einstök í sögu hagsmunabaráttu útvegsmanna – þar sem útvegsmenn stefndu flota sínum til Reykjavíkur eftir að hafa boðað sjómenn til vinnu. Starfsfólkið skyldi mótmæla breytingunum fyrir hönd útvegsmanna. „Það er verið að neyða alla sjómenn um borð og sigla til Reykjavíkur,“ sagði starfsmaður Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sem ekki vildi koma fram undir nafni. Þá var greint frá því að áhafnir hefðu verið boðaðar til vinnu og ættu að vera klárar til að fara á sjóinn og mótmæla í Reykjavík áður en haldið yrði til veiða.
„Það er mjög erfitt fyrir menn að bregðast við þessu,“ sagði Sævar Gunnarsson hjá Sjómannasambandi Íslands vegna málsins á sínum tíma. Hann benti á aðstöðumuninn sem hér spilaði inn en stéttarfélög sjómanna gætu ekki hvatt menn til að mæta ekki til vinnu því það væri ólögleg aðgerð. „Karlarnir hafa ekkert með það að gera þótt útgerðarmenn ákveði að skipið komi við í Reykjavík á leið til veiða.“ Mótmælafundur LÍÚ var haldinn og fjöldi sjómanna var á staðnum eftir að hafa verið boðaður í vinnu og siglt á mótmæli. Sama gilti um starfsfólk landvinnslunnar en sem dæmi má nefna að starfsmönnum í frystihúsi Nesfisks ehf. í Garði á Reykjanesi var boðið upp á frítt áfengi tækju þeir þátt í mótmælum LÍÚ. Þá bauð fyrirtækið einnig upp á fríar rútuferðir til Reykjavíkur fyrir þá sem kusu að taka þátt í mótmælunum. Þeim starfsmönnum sem ekki þáðu boð fyrirtækisins var gert að vinna á meðan hinir fengu frí.
Seinna greindi DV frá því að LÍÚ hefði hlutast til um þinglok sama ár. Umfjöllunin sýnir glöggt hversu langt útgerðarvaldið getur seilst. Berlega kemur fram að útgerðarmennirnir í stjórn LÍÚ [heitir í dag SFS] telja hagsmunasamtök sín ekki virk í stjórnmálum. Þó sagði einn stjórnarmaður að samtökin væru í raun eini her landsins. „Það er eitt sem við erum – eigendur og forstjórar þessara fyrirtækja, starfsmenn og yfirmenn, þeir eru um allt land og þetta eru yfirleitt áberandi einstaklingar í öllum samfélögum sem þeir eru í. Þeir eru kannski í bæjarstjórn eða ungmennafélagi eða eitthvað og það er bara af því að þeir eru þannig karakterar. Þetta er eiginlega eini herinn á Íslandi. Þegar við virkjum þennan her þá er hann ofboðslega öflugur, af því hann er bara um allt land, á öllum þjóðfélagsstigum, í öllum flokkum. Hann einhvern veginn bara vaknar. Ingibjörg Sólrún kynntist þessu árið 2003. Allt í einu kom bara einhver ótrúlegur her og lamdi hana algjörlega niður. Davíð Oddsson gerði sama árið 1991 eða 1993, þegar hann fór að mótmæla Hafró. Þá las Davíð skýrslur Hafró, svo kom hann og sagði: Þetta eru nú bara einhverjar ágiskanir, þeir eru ekki búnir að rannsaka eitt né neitt. Hann varð reiður og vildi skera niður kvótann. Þá fékk hann bara kjaftshögg hér og þar og svo bara bakkaði hann.“ Af þessum ummælum að dæma má greina að útgerðarmenn virðast innbyrðis nokkuð meðvitaðir um eigið afl til áhrifa þótt opinberlega vilji þeir ekki kannast við stjórnmálaþátttöku eða beitingu afls.
Greinin birtist upphaflega í janúartölublaði Man magasín árið 2015