Eykon bað mig um að taka að mér verkefni, sem ég gerði, en ekki fyrr en að lokinni alvarlegri umhugsun,“ skrifaði Styrmir Gunnarsson, þá ritstjóri Morgunblaðsins, árið 1997. Eykon sá er um ræðir er Eyjólfur Konráð Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. „Því [verkefninu] sinnti ég á hans vegum fram eftir Viðreisnaráratugnum. Það starf hafði margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna á þessum árum en eins og margt af því, sem gerðist á tímum kalda stríðsins, bíður frásögn af því síðari tíma.“
Í köldu stríði
Styrmir greinir frá njósnum sínum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, og að því er hann grunar, erlendra aðila í nýrri bók sinni Í köldu stríði – vinátta og barátta á átakatímum. Eigi bókin að vera tilraun Styrmis til að gera upp þátt sinn í kerfisbundnum ofsóknum valdastéttar Sjálfstæðisflokksins gegn andstæðingum þeirra, þá hefur honum ekki tekist það. Við lestur bókarinnar má sjá, eins og áður í skrifum Styrmis, að markmiðið er aðeins að skapa ásýnd uppgjörs en ekki að gera upp og taka ábyrgð á þeim skaða sem gjörðir Styrmis og þröngrar klíku, með aðstoð Morgunblaðsins, ollu þeim sem stimpluð voru óæskileg og hættuleg án þess að eiga þess kost að andmæla dómi klíkunnar.
Rústuðu lífum
Styrmir, Morgunblaðið, Sjálfstæðisflokkurinn, fyrrverandi ráðherrar og ættmenni núverandi valdamanna flokksins rústuðu lífi fjölda fólks. Það er staðreynd, óumdeilanlegt og vel skrásett. Vissulega hefur Styrmir reglulega kastað brauðmolum eftirsjár til þeirra sem urðu fyrir barðinu á njósnum, ofsóknunum og útskúfunum en eins og áður sagði, er þó ekki um raunverulegt uppgjör að ræða. Hverjum brauðmola skal fylgja frasi um að þeir sem ekki upplifðu þessi ár skilji ekki þankaganginn. Að svona hafi tíðarandinn verið og að jú menn hafi einfaldlega trúað á málstaðinn.
Hugsunarglæpir
„Þeir sem ekki upplifðu kalda stríðið eins og það var harðast munu aldrei skilja þau viðhorf, sem réðu gerðum manna á þeim árum,“ skrifaði Styrmir um Eykon árið 1997. Árið 2014 skrifar hann: „Nýjar kynslóðar tala af fyrirlitningu um kalda stríðið, með vanþóknun um það sem kallað er „hugsunarhátt kalda stríðsins“ og það fólk sem kalla má kynslóð kalda stríðsins er afgreitt þegar af þeirri ástæðu sem fortíðarfyrirbæri sem heyri sögunni til.“ Styrmir hefur árum saman endurtekið frasann um að þeir sem ekki lágu hugfangnir í faðmi valdastofnana Valhallar geti aldrei skilið hugsunarhátt kalda stríðsins. Vandinn við þessa afsökun er að glæpir kalda stríðsins voru ekki hugsanaglæpir – heldur raunverulegar aðgerðir með raunverulegum afleiðingum. Að hafa aðhyllst nasisma er ekki stærsti glæpur nasista. Að hafa aðhyllst kommúnisma var aldrei stóri glæpur Stalíns. Það að hafa aðhyllst lýðræði og frelsi í orði, veitir Styrmi enga sakaruppgjöf frá dómi minnar kynslóðar eða annara kynslóða. Njósnir með það að markmiði að tæta af fólki æru þeirra og koma þannig í veg fyrir að það geti aflað sér tekna er „ógeðslegt“. Það eru engar afsakanir fyrir slíku. Styrmi er auðvitað velkomið að greina frá og gera upp en að vanda gerir hann það ekki. Aðrir, og kannski sérstaklega þeir sem brotið var á, eiga bara að fyrirgefa en ekki krefjast iðrunar.
Allt of fínt
Fjarstæðukenndasta yfirlýsing bókarinnar er sá skilningur Styrmis að gjörðir hans séu einfaldlega of fínar til að teljast njósnir. Þá segist hann aðeins hafa haft grun um að upplýsingarnar færu beint til erlendra yfirvalda. Hér heldur Styrmir sig eins og áður við hálfsannleika. Styrmi er fullkunnugt um þátt Morgunblaðsins, sem hann ritstýrði, í að berja á fólki sem taldist andstæðingar valdaflokksins og eða hafa óæskilegar hugmyndir. Náin tengsl Morgunblaðsins við bandarísk yfirvöld í gegnum opinberar stofnanir, sem flokkurinn hafði löngu gert að sínum, eru Styrmi löngu ljós. Þáttur Morgunblaðsins í að afsaka andlýðræðisleg vinnubrögð, valdníðslu og hreinræktaðar ofsóknir eru löngu opinberar. Í bók sinni líkt og fyrri skrifum sér Styrmir ávallt sérstaka ástæðu til að verja þátt sinn og vina sinna á blaðinu með þessum endurtekna frasa um kalda stríðið og baráttuna sem „allir“ töldu sig hluta af.
Stríðsástand!
Alþingi var ekki kallað saman vegna komu varnarliðsins bandaríska árið 1951. Það var ólýðræðislegt enda þingsins en ekki ráðherra að heimila slíkt. Morgunblaðið var að vanda í varnarstöðu fyrir sína klíku. Það gerir Styrmir að umfjöllunarefni í bók sinni. Þá bendir hann á að væntanlega kæmist enginn ríkisstjórn upp með þetta í dag. „Hins vegar mátti færa rök að því á þessum tímum hálfgerðs stríðsástands að lýðræðislegar umræður fyrir opnum tjöldum um hvort gera ætti slíkan samning gætu boðið hættunni heim.“ Stríðsástandið sem um ræðir var vissulega til staðar víða í heiminum, ef til vill mátti færa rök fyrir raunverulegri hættu hér á landi. Fyrst og fremst var stríðsástandið rekið áfram af öfgakenndri hagsmunagæslu fámenns hóps en sveipaði sig frelsi og lýðræði á annan veginn á meðan barið var á þeim sem töluðu fyrir því að þessi sömu réttindi og lífsgæði næðu einnig til verkafólks.
Fortunately, 90% cheap cialis canada of gallstones’ remain asymptomatic. The pills are sales uk viagra available online at reasonable prices and fast delivery is ensured. So many people facing erectile dysfunction prefer cheap brand cialis over other ED medications. What occurs to people with diabetes? Unfortunately, greyandgrey.com purchase generic cialis the disease is not partial.
Ekkert má nú …
Árið 2012 kom út bókin Sjálfstæðisflokkur átök og uppgjör eftir Styrmi. Þar eru eins og áður sýnishorn af því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum áratugina ofið sig saman við allar helstu stofnanir og beitt sem sínum eigin. Fjölmiðlar eru þar ekki undanskildir frekar en lögreglan, viðskiptalífið og jafnvel utanríkisþjónustan. „Þegar hér var komið hafði Morgunblaðið byggt upp býsna fullkomið upplýsingakerfi, með tengslum við innlenda og erlenda aðila,“ segir Styrmir í bókinni í sömu andrá og hann skýrir hvernig Morgunblaðið komst yfir mynd sem vakti mikla athygli í gegnum sama net. „… nýttust þessi tengsl bæði með birtingu frétta í Morgunblaðinu og Sjálfstæðisflokknum á hinum pólitíska vettvangi.“ Myndina, sem var af sovésku eldflaugaskipi, fékk Styrmir afhenta í bandaríska sendiráðinu. „Nú kann einhver að setja spurningamerki við slík tengsl Morgunblaðsins og erlends sendiráðs. Svar mitt er að á dögum kalda stríðsins voru Íslendingar samherjar Bandaríkjamanna og annara aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn voru í fremstu víglínu í þeirri baráttu hér innanlands.“ Vissulega beita fjölmiðlar öllum mögulegum leiðum við upplýsingaöflun til fréttaskrifa. Við það er ekkert að athuga en meðvituð þátttaka í stríði er eitthvað sem fjölmiðlar varast iðulega og ættu í það minnsta að geta gert upp, án afsakana áratugum seinna.
Bíltúrinn
Árið 1974, skömmu eftir Alþingiskosningar, setjast tveir íslenskir blaðamenn upp í bíl með Frederick Irving, sendiherra Bandaríkjanna, og deila með honum upplýsingum úr einkasamtölum sem þeim hafði verið treyst fyrir í krafti starfa þeirra sem blaðamenn. Óvissa er um ríkisstjórnarmyndun vegna nýafstaðinna kosninga. Blaðamennirnir heita Björn Bjarnason, fréttastjóri á Vísi, og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins. Þeir eru óhræddir við að deila upplýsingunum. Styrmir talar meira en Björn, segir sendiherrann. Í bók sinni Í köldu stríði segir Styrmir að sig hafi alltaf grunað að upplýsingarnar hans færu lengra. Hvað þarf til að sannfæra Styrmi ef fundir sem hann átti í eigin persónu, þar sem hann veitti fulltrúum erlendra ríkja upplýsingar, duga ekki til? Skjöl af fundum Styrmis eru opinber. Þau voru birt af bandarískum yfirvöldum árið 2005.
Kommúnistavinir
Sjálfsvorkunn skín í gegnum skrif Styrmis, ekki bara í hans nýjustu bók, heldur öllum skrifum hans um tímabilið. „Við Tómas [Karlsson heitinn] vorum samstúdentar og á milli okkar var kosið í inspectorskosningum í Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1957. Tómas var kjörinn en ég átti í miklu basli með þann áróður sem notaður var gegn mér og var sá, að allir vinir mínir væru kommúnistar og þess vegna væri mér ekki treystandi,“ segir í bókinni Sjálfstæðisflokkurinn átök og uppgjör. Sama tóninn má svo merkja í nýjustu bókinni þar sem hann ræðir eigið hjónaband og hvernig það varð til umræðu í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann nefnir hvernig samskipti hans við hina ofsóttu [sem er raunar ekki orð sem Styrmir notar] jók skilning hans á hversu vont er að verða fyrir barðinu á andúð. Þá ber hann saman hatrið sem ákveðnir kimar samfélagsins bera til Morgunblaðsins saman við framkomu hans og flokksins gegn heilu fjölskyldunum. Samt virðist það ekki fá Styrmi til að hætta stöðugt að afsaka og draga úr afleiðingum þess sem hann og flokkurinn stunduðu með aðstoð Morgunblaðsins. Það er heldur ekki að sjá á störfum hans á Morgunblaðinu að hann hafi spyrnt fótum gegn vænissjúkum skrifum um erlenda og innlenda kommahættu. Styrmir sem hluti af þessu kerfi þarf ekkert að efast um eða slá nokkra varnagla. Hann sá þetta, upplifiði og framkvæmdi. Hvort sem það eru síður blaðanna, skjalasöfn bandarískra yfirvalda, bækur sagnfræðinga, ævisögur formanna, dómsmál og játningar nútímans þá er niðurstaðan löngu ljós. Þetta voru njósnir. Framkvæmdar án réttmætrar málsmeðferðar og höfðu miklar afleiðingar á fólkið sem ráðist var að. Ævisaga Gunnars Thorodssen, eftir Guðna Th. Jóhannesson, lýsir ótrúlegum metnaði flokksins í að njósna og útiloka. Þetta er öllum löngu ljóst. Hvers vegna er Styrmir enn að tönglast á þessari gömlu lummu um að tíðarandinn og alheimsstríðið séu óskiljanleg öðrum en þeim sem upplifðu?
Vinstrið sem ekki les
Endalok kalda stríðsins eru ein af mínum fyrstu minningum af stjórnmálum. Um mig var ekki njósnað. Fjölskyldan mín var ekki meðal forkólfa verkalýðshreyfingarinnar. Ég er ekki af betra kyni en svo að fátt hefur verið skrifað um mitt fólk og enn færri hafa nennt að ofsækja okkur. Stjórnmálin hafa alla jafna ekki tvístrað fjölskyldu minni og sumir kusu jafnvel marga flokka. Ég þarf ekkert að hafa upplifað ofsóknir jakkafataklúbbs Morgunblaðsins og Valhallar í æsku minni til að skilja hvers konar menn þeir sem útskúfa aðra kerfisbundið; ofsækja og njósna um til að rægja í fjölmiðlum; deila og drottna, áður en það sem þótti mest krassandi var sent áfram til erlendra njósnastofnana. Ég þarf ekkert að upplifa geðveikina og vænissýkina sem dreif Styrmi og hans félaga áfram, til að skilja að skrímslin sem þeir þóttust berjast gegn voru þeir sjálfir. Uppgjör felst í að horfast í augu við hvenær of langt var gengið en ekki afsaka með frösum um að þeir sem fá fyrir hjartað að lesa um slíka voðaverk – skilji bara ekki tíðarandann eða hafi raunar ekki lesið bókina; séu raunar of vinstrisinnaðir til að fatta.
Syndaflausn á fullu verði
Sjálfstæðisflokkurinn var aldrei raunverulega hræddur við kommúnista. Enginn flokkur var jafn gjarn á að lyfta kommum upp á syllu valdsins. Flokkurinn átti meðal annars sæti í ríkisstjórn í skjóli kommúnista. Árið 1944 varð Brynjólfur Bjarnason, stofnandi og formaður Kommúnistaflokks Íslands, menntamálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Thors. Hræðslan var uppdiktuð og vopn í baráttunni innanlands en ekki hugmyndafræðilegt stríð gegn alheimskommúnismanum. Styrmir veit þetta fyrst ég get séð þetta. Vissulega er að finna áhugaverðar upplýsingar í nýjustu bók Styrmis. Mér leiddist ekki við lestur hennar enda hef ég áhuga stjórnmálum. Að mér læðist þó sá grunur að bókin kunni að vera ætluð sem syndaaflausn manns sem er farinn að velta fyrir sér annarri vist. En sé svo, þá er spurning hvort iðrun þyrfti ekki að fylgja slíku erindi inn í miðju jólabókaflóði.
Ritað fyrir Reykjavík vikublað – 6. desember 2014 – Smávægilega breytt frá prentútgáfu.