Moskuútspil Framsóknar, örfáum dögum fyrir kosningar, var engin tilviljun heldur beint framhald af daðri flokksins við populíska orðræðu. Þótt þjóðernishyggja sé Framsóknarflokknum ekki fjarlæg er ljóst að Framsókn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er töluvert önnur en Framsókn Halldórs Ásgrímssonar eða Jóns Sigurðssonar. Undir stjórn Sigmundar hefur flokkurinn gælt enn frekar við hægri popúlíska orðræðu en áður, útlendingaandúð hefur fengið að grassera án þess að forystan hafi gripið inn í og flokkurinn hefur skrímslavætt hina ýmsu þjóðfélagshópa með ríkari hætti en áður. Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs uppfyllir skilyrði popúlískrar stjórnmálahreyfingar og hefur gert það í töluverðan tíma.
Í anda popúlískra hreyfinga hefur gagnrýni á Framsóknarflokkinn ávallt verið svarað á þeim nótum að um óvildarmenn flokksins sé að ræða. Þannig eru fjölmiðlar, ef marka má málflutning flokksins, undir oki annarlegra hagsmuna óvildarmanna í þau skipti sem flokkurinn er gagnrýndur. Gagnrýnin virðist þannig alltaf eiga rót sína í sérhagsmunum elíta, peningaafla eða stjórnmálastéttar sem er andsnúin eða úr tengslum við hinn hefðbundna Íslending. Með útspili sínu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar gekk flokkurinn hins vegar lengra en áður með tilboði sínu um að „venjulegu fólki“ byðist í nafni lýðræðis að kjósa um hvort, hvernig og hvenær minnihlutahópur skyldi njóta jafnréttis fyrir lögum.
Hvað er populismi?
Popúlismi finnst bæði á vinstri og hægri væng stjórnmálanna. Skortur á fastmótaðri stefnu einkennir slíkar hreyfingar beggja megin við ásinn. Hreyfingarnar hafa alla jafna skýrar hugmyndir um hvað þurfi að laga en svara auðu þegar kemur að tæknilegri útfærslu og raunsærri verkáætlun. Popúlískar hreyfingar eru oft á tíðum frekar lausmótaðar og fljótandi, þótt það sé ekki endilega krítería sem þarf að uppfylla til að teljast popúlísk hreyfing. Erfitt er að svara spurningunni um hvað sé popúlismi í stuttu máli enda mörkin ekki alltaf skýr. Það er svo kaldhæðni örlaganna að einmitt það spilast upp í hendurnar á popúlistum en eitt helsta einkenni þeirra er sú tilhneiging að ofureinfalda flókin úrlausnarefni með einföldum og auðmeltanlegum frösum. Popúlískar hreyfingar hafa þó oftar en ekki ásýnd fastmótaðrar stefnu og hugmyndafræði enda hafa þær grófar hugmyndir um hvað veldur óánægju alþýðunnar sem og hvaða óvinir séu ástæða þeirrar óánægju. Skrifræði, miðstýring og embættismenn eru þar uppáhald popúlískra hreyfinga til vinstri og hægri.Hreyfingarnar eru ýmist íhaldssamar og leggja til að mynda áherslu á hefbundið verðmætamat, nauðsyn þess að efla lög og reglu eða leggja sérstaka áherslu á hugmyndir um þjóðleg gildi og menningu. Aðrar popúlískar hreyfingar eru róttækar og sýna andstöðu við ríkjandi þjóðskipulag, menningarleg gildi eða formfestu. Það einkennir popúlískar hreyfingar að leiðtogi hreyfinganna er gjarnan hylltur sem „venjulegur“ maður sem, ólíkt öðrum stjórnmálamönnum, skilur plikt millistéttarinnar, heimilanna og hins vinnandi manns. Af sömu ástæðu er sérstök hætta á uppgangi popúlisma á erfiðari tímum enda popúlismi fyrst og fremst viðbrögð við óánægju, sem á góðum tímum er ef til vill undirliggjandi en fer dult.
Togstreita er popúlismum nauðsynleg enda tala popúlistar beint inn í þá tilfinningu fólks að það verði einhvern veginn undir í núverandi samfélagsskipulagi. Hreyfingin býður sama fólki lausn á eigin vanda með einfeldningslegum frösum og töfralausnum en skortir iðulega formaða áætlun og getuna til að útskýra í smáatriðum hvernig ná á fram boðuðu réttlæti.
Óvinurinn
Sú hópaskipan sem hægri popúlistar skapa svo setja megi andlit á óvininn er nýtt til þess að saka sömu hópa um að grafa undan menningarlegum samhljómi eða samfélagssáttmála þjóðfélagsins. Óvinurinn er sakaður um að kosta samfélagið of mikið. Þannig eru innflytjendur í aðra röndina sakaðir um að taka vinnu af innfæddum fyrir margfalt lægri laun en innfæddir geta sætt sig við en á hinn bóginn er sami hópur svo sakaður um að misnota velferðarsamfélagið sem byggt var með blóði, svita og tárum forfeðra hinna innfæddu. Hægri popúlistar eru því skýrir í málflutningi sínum um að almannatryggingakerfið og öryggisnet samfélagsins sé skapað fyrir, og aðeins fyrir, innfædda sem þegar hafa sett inn í kerfið, til að mynda eldra fólk eða þá sem þeir telja harðduglega, en ekki að kerfið sé einmitt líka fyrir þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki fyllilega skapað sér þau lífsgæði sem samfélagið er sammála um að allir skuli njóta.Hægri popúlistar aðgreina þannig innfædda og hefðbundna frá hinum aðfluttu eða óhefðbundnu. Það leiðir af sér að þjóðernispopúlismi fellur til hægri á hinu pólitíska litrófi. Útkoman er iðulega afar opinber og auðgreinanleg andúð á þeim hópum sem flokkarnir nýta sér til að skapa óvin. Útlendingaandúð er fylgifiskur hægri popúlisma og á sér ýmsar birtingarmyndir. Í vesturhluta Evrópu er islamafælni algengust en í Austur-Evrópu er andúð á Rómafólki og Gyðingum alla jafna birtingarmynd útlendingaandúðarinnar. Hugmyndir um skilyrtan tilvistarrétt einkenna hægri popúlisma þegar kemur að réttindum hinna ýmsu hópa. Dæmi um slíkt er að útlendingar sem aðlagast vel að gildum gistiríkisins eiga sér oft á tíðum grið meðal hreyfinganna. Þótt mörk þess að hreyfing sé hægri öfgahreyfing eða hægri popúlistahreyfing séu við fyrstu sýn ekki mjög skýr má segja að munurinn felist fyrst og fremst í því hvernig hreyfingarnar starfa.
Popúlískir hópar starfa alla jafna innan regluverks frjálslynds lýðræðis, þótt orðræða þeirra nái á köflum út fyrir hið hugmyndafræðilega regluverk frjálslegs lýðræðis. Hægri öfgahreyfingar eru hins vegar óhræddar við að beita ofbeldi og hrottaskap. Þá eru tilfelli þar sem öfgaflokkar og -hópar halda jafnvel úti eigin málaliðum líkt og brúnstakkar nasista á árunum fyrir stríð. Slík formfesta í hrottaskap er hins vegar ekki nauðsynleg enda mikilvægt að muna að popúlískir hópar búa gjarnan frekar yfir ásýnd skipulags, stefnu og festu frekar en að hún sé raunverulega við lýði. Mörkin milli hægri öfgaflokka og popúlískra flokka eru alla jafna ekki jafn skýr né aðgreinanleg og hér kemur fram. Stjórnmál eru enda flóknari en svo að hægt sé að sjóða þau niður í stutta og auðmeltanlega frasa. Útlendingaandúð hægri popúlista er svo iðulega dulbúin sem efasemdir um fjölmenningarsamfélagið, sem þeir telja hafa misheppnast harkalega, en sökum pólitísks réttrúnaðar sé lítill vilji til að ræða vandamál fjölmenningar á hispurslausan hátt.
Leiðtoginn
Hinn sterki leiðtogi er hægri popúlistum afar mikilvægur og raunar töluvert mikilvægari en popúlistum á vinstri væng stjórnmálanna, þar sem er að finna töluverða andúð við hugmyndina um sterkan leiðtoga. Í hægri popúlista hreyfingum birtist leiðtoginn þannig sem fulltrúi alþýðunnar, sem meðlimir hreyfingarinnar kalla nöfnum eins og millistéttina, heimilin eða venjulegt fólk, eftir hentugleika. Einkenni popúlískra leiðtoga er svo áhættusækni og það að starfa raunar líkt og einyrki í stjórnmálum, maður sem er yfir hreyfingunni en ekki hluti af henni. Einkenni popúlískra hreyfinga á hægri væng stjórnmálanna er ásýnd jafnræðis innan þeirra, þótt hreyfingin sæki raunar stefnu sína að ofan frá forystunni fremur en að neðan frá grasrótinni.
Leiðtoginn leyfir þannig meðlimum og embættismönnum hreyfingarinnar að sprikla og tala inn í mismunandi hópa, hreyfingunni til framdráttar. Sú hegðun gefur hópnum ásýnd sjálfstæðis og jafnræðis en er raunar ætlað að þjóna valdsækni og fiskeríi eftir atkvæðum fremur en hugmyndafræðilegri gerjun innan flokksins. Gagnrýni á leiðtogann eða þá stefnu sem flokkurinn er að halda í átt að er hins vegar ekki liðin og frami þeirra sem slíkt gera er iðulega stöðvaður og þeim ítrekað sýnt hvaða niðurlæging fylgi slíkri hegðun. Leiðtoginn nær þannig að sameina kosti þess að búa yfir virkri og losaralegri hreyfingu þar sem meðlimir og embættismenn hreyfingarinnar telja sig frjálsa frá hugmyndafræðilegum annmörkum og yfirvaldi sem haldið gæti aftur af grasrótinni. Hann tryggir á sama tíma að efsta lag flokksins sé honum hliðhollt með hörðum refsingum gagnvart þeim sem ekki ganga í takt við leiðtogann. Sem maður fólksins talar leiðtoginn í einföldum frösum um flókin mál. Hann beinir tali sínu að tilfinningum og ótta frekar en rökum. Hann sýður þannig flókin mál niður í einfalda frasa líkt og; við höfum þegar borgað nóg, fyrst verðum við að fæða eigið fólk áður en við gefum fé í erlent hjálparstarf, millistéttinni blæðir, við verðum að horfa fram á við og hætta að vera alltaf að horfa í baksýnisspegilinn eða tryggja verður varnir landsins gegn erlendum áhrifum/glæpastarfsemi, svo dæmi séu nefnd.
Bannhelgi umræðunnar
Áberandi í tungutaki popúlista eru hugmyndir um bannhelgi umræðunnar sökum pólitísks rétttrúnaðar. Í hugarheimi popúlistanna er málfrelsinu þannig ógnað af öfgafullum rétttrúnaði fjölmenningarinnar, svo dæmi sé nefnt. „Ég segi það sem þú hugsar,“ var þannig eitt helsta slagorð Jörg Haider, leiðtoga Austurríska frelsisflokksins. Í tungutaki fulltrúa popúlískra hreyfinga verður rof á bannhelgi umræðunar þar af leiðandi þungamiðja í orðræðu flokksins inn á við og út á við. Hreyfingum, sem aðhyllast popúlisma, er afar mikilvægt að skapa þá hugmynd að verulega halli á „venjulegt fólk“ í almennri umræðu. Hún sé á forræði pólitískrar rétthugsunar, elíta eða annarra hópa sem flokkarnir hafa trommað upp sem óvini sinna umbjóðenda. Hóparnir geta þannig verið jafn framandi og erlendir múslimar og jafn innlendir og lattelepjandi miðbæjarrottur.
Hóparnir breytast en togstreitan ekki enda er hún málsvörum flokksins nauðynleg. Togstreitan skapar þeim sem telja á sig hallað í umræðunni rými til að taka ekki ábyrgð á afleiðingum orða sinna og gjörða. Togstreitan skapar hreyfingunni, meðlimum hennar og forsvarsmönnum fjarvistarsönnun þegar andstæðingar saka hreyfinguna um öfga, hatur eða popúlisma. Þar sem umræðan er þegar á forsendum andstæðinga flokksins, þeirra sömu og eru fastir í viðjum bannhelgi umræðunnar, þá er gagnrýni eða merkimiðar til fordæmingar, sem beint er að flokknum, ekki annað en árásir óvildarmanna. Niðurstaðan er því ávallt sú að hreyfingin er í raun fórnarlamb umræðunnar og þeirra fordóma sem hún er sjálf sökuð um. Gagnrýni er svarað með kröfu um öfgalausa umræðu, krafan um uppgjör hreyfingarinnar við fortíðina verður að árás. Ákall um að dregin verði skýr lína í sandinn um hvaða skoðanir rúmist innan hreyfingarinnar og hvaða skoðanir geri það ekki, er gerð tortryggilegt með tali um skoðanakúgun í stað ábyrgðar. Flokkurinn er því iðulega fórnarlamb óvildarmanna þegar tekist er á um samfélagsmál.
Togstreitan við kerfið
Togstreita er popúlískum hreyfingum lífsnauðsynleg. Séu fulltrúar þeirra ekki að brjóta á bak aftur bannhelgi pólitísks rétttrúnaðar þá eru þeir að verjast hatursfullum fjölmiðlum sem leitast við að misskilja og slíta úr samhengi. Komist flokkarnir í valdastöðu má gjarnan tilfinnanlega skynja togstreitu flokksins við stjórnsýsluna og uppbyggingu hefðbundinna valdastoða og stjórnsýslustiga. Popúlískir flokkar taka sig þannig til við að endurskilgreina ýmsar viðteknar venjur kerfisins í eigin þágu, enda eru þær birtingarmynd skriffinnsku, miðsstýringar og embættismannakerfis, þess sama og hreyfingin berst gegn. Nýlegt dæmi um slíkt er furðuleg tilkynning ríkisstjórnarinnar um að ríkisstjórnin, sem er samráðsvettvangur ráðherra sem fara með framkvæmdavald, sé ekki aðili að verðtryggingamáli sem rekið er fyrir EFTA-dómstólnum. Málið sé á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, eins af ráðuneytum framkvæmdavaldsins. Með slíkum orðhengilshætti og endurskilgreiningum á hlutverkum bægja popúlískar hreyfingar frá sér gagnrýni og skapa þannig samskonar togstreitu og er þeim svo mikilvæg á öðrum vettvangi innan stjórnkerfisins.
Lýðhyggja er víða
Aðrir flokkar en Framsókn geta vel gælt við popúlisma og vitanlega má finna ýmis líkindi með málflutningi flestra flokka og popúlisma. Við fyrstu sýn er stefna lýðhyggju svo keimlík lýðræði að erfitt er að ímynda sér nokkurn flokk íslenskrar umræðu sem aldrei hefur gælt við popúlíska orðræðu og hugmyndir. Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs er hins vegar svo gegnumsýrður af popúlískum hugmyndum og orðræðu að fyllilega sanngjarnt er að tala um Framsóknarflokkinn sem popúlískan hægri flokk þótt aðrir flokkar fái ekki þann stimpil. Raunar er langt síðan erlendir fjölmiðlar hófu að kalla Framsóknarflokkinn popúlískan flokk án fyrirvara þótt innlendir fjölmiðlar séu þar tregari til. Ágætt dæmi um hvernig popúlistar bregðast við gagnrýni á orðræðu flokksfélaga og trúnaðarmanna er að blanda þar saman tæknilegum rökum og tilfinningum. Þannig er gagnrýni á ummæli kjörinna fulltrúa iðulega svarað sem fjarstæðu um leið og vitnað er í lög og stefnu hreyfingarinnar. Þá er klykkt út með að draga eigin persónu inn í málið og spyrja hvort nokkrum detti í hug að sá hinn sami myndi starfa í hatursfullri hreyfingu.
Þjóðleg gildi
Það þurfti ekki andstöu við byggingu mosku til að Framsóknarflokkurinn fengi á sig gagnrýni og ásakanir um popúlíska orðræðu. Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor við Bifrastarháskóla, skrifaði í október árið 2011 pistil sem birtist í Fréttatímanum og bar heitið Þjóðleg gildi og andstaðan við innflytjendur. „Í allra síðustu tíð hefur Framsóknarflokkurinn svo eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna. Breytingar á merki flokksins vísa til að mynda í klassísk fasísk minni og áhersla hefur verið á að sýna þjóðleg gildi á fundum flokksins, svo sem glímusýningu undir blaktandi þjóðfánanum. Orðræða sumra þingmanna hefur í auknum mæli einkennst af hollustu við þjóðernið. Enn er þó ekki ljóst hvort flokkurinn ætli sér að sækja enn lengra inn í þetta mengi,“ segir Eiríkur í pistlinum sem vakti mikla reiði meðal Framsóknarmanna sem svöruðu með sameiginlegri yfirlýsingu vikuna eftir. Með skrifum sínum setur Eiríkur uppgang þjóðernispopúlisma í samhengi við andstöðuna gegn stefnu fjölmenningarsamfélagsins og rekur nokkur dæmi um auknar efasemdir um fjölmenningastefnuna í hefðbundinni stjórnmálaumræðu. „Undanfarið hafa leiðtogar voldugra ríkja lýst auknum efasemdum um fjölmenninguna. Hægri stjórnir í Danmörku og Hollandi boðuðu brátt afturhvarf til einsleitnisstefnu í þjóðernismálum. Á fundi með ungliðahreyfingu kristilegra demókrata fyrr um árið [innskot: árið 2011] sagði Angela Merkel að tilraunin til að byggja fjölmenningarlegt samfélag hafi gjörsamlega mistekist. Hún hafnaði samlögun og boðaði þess í stað hreina aðlögun innflytjenda að þýsku samfélagi og menningu. Í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í London í júlí 2005 boðaði Íhaldsflokkurinn afnám fjölmenningarstefnu í Bretlandi. Í febrúar á þessu ári lýsti David Cameron svo yfir afnámi á fjölmenningarstefnu Verkamannaflokksins sem hann sagði að hefði misheppnast algjörlega. Hann boðaði enn sterkari breska þjóðarsjálfsmynd. Í Frakklandi hefur Nicolas Sarkozy tekið í svipaðan streng.“
Andstaðan við Bergmann
Af þessu má öllum vera ljóst að Framsóknarflokkurinn er ekki óvanur ásökunum um daður við hægrisinnaðan þjóðernispopúlisma. Umræðan um dans flokksins á línu skrums og ábyrgrar orðræðu ættu því að koma fáum á óvart og sérstaklega ekki Framsóknarfólki sjálfu. Af þeim sökum eru síendurtekin hneykslunarviðbrögð þeirra sem starfa í Framsóknarflokknum undarleg svo ekki sé meira sagt. Þannig hefur flokkurinn og meðlimir hans tamið sér að bregðast við líkt og þau komi algjörlega af fjöllum enda sé gagnrýnin svo fjarstæðukennd að erfitt sé að svara henni. Viðbrögð, sem eru nauðsynlegur þáttur í að skilgreina alla gagnrýni af þessari hálfu, sem fordóma, misskilning eða andúð á flokknum.
„Framsóknarmenn geta ekki setið undir ósönnum aðdróttunum um þjóðernisöfgar og útlendingahatur, aðdróttunum sem settar eru fram í pólitískum tilgangi og á fráleitum forsendum. Ekkert í stefnu flokksins réttlætir slíka umfjöllun, þvert á móti, enda víkur Eiríkur ekki einu orði að stefnu flokksins í skrifum sínum. Þingflokkurinn telur mjög alvarlegt að fulltrúi háskólastofnunar leyfi sér að koma fram á þennan hátt,“ segir til að mynda í yfirlýsingu þingflokks Framsóknarflokksins, vegna umfjöllunar Eiríks Bergmanns, sem birt er í Fréttatímanum 11. nóvember árið 2011, viku eftir að skrif Eiríks birtust í blaðinu.
Hatursfulli Evrópusambandssinninn
Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins lét yfirlýsinguna eina og sér ekki nægja heldur krafðist þess, undir rós, að Eiríkur yrði ávíttur ef ekki rekinn fyrir skrifin. „Ég skora á skólastjórn Háskólans á Bifröst og rektor skólans að fara yfir hegðun doktor Eiríks sem starfsmanns ríkisstyrkts háskóla. Ekki doktorsins vegna – heldur vegna orðstírs Háskólans á Bifröst,“ skrifar Vigdís í aðsendri grein í Morgunblaðið. Þá ávarpar hún Eirík og skrifar; „Grein þín í Fréttatímanum liðna helgi er til marks um það – að grípa til þeirra bragða sem þú notaðir þar – ætti að vera ástæða til að vísa þér úr starfi í Háskólanum á Bifröst. Þar ferðu yfir öfgahreyfingar í Evrópu og á Norðurlöndunum og lýsir hatri þeirra á innflytjendum. Þú ferð einnig yfir hin hræðilegu Úteyjarmorð og berð þetta svo allt saman við Framsóknarflokkinn og telur hann hafa breyst í þessa átt hin allra síðustu ár. Ég fyllist viðbjóði, doktor Eiríkur, á samlíkingunni og afþakka slíkar samlíkingar fyrir mína hönd og framsóknarmanna allra.“ Þess ber svo að geta að Vigdís lætur ekki nægja að lýsa sig fórnarlamb ómálefnalegra skrifa eða ýja að annarlegum hvötum höfundar heldur veltir hún upp spurningum um hvort samskipti Fréttatímans og Bifrastar séu með einhverjum hætti óeðlileg með því að ræða sérstaklega tilhögun auglýsingar frá Bifröst á sömu síðu og pistlar Eiríks birtast. Af viðbrögðum flokksins að dæma mætti halda að flokkurinn, allir hans trúnaðarmenn, kjósendur og forysta komi algjörlega af fjöllum vegna ásakana um þjóðernispopúlískt daður. Þrátt fyrir að aðeins nokkrum vikum áður hafi Framsókn þurft að verjast ásökunum um daður við þjóðernishyggju og popúlíska umræðu og það úr eigin ranni.
Hreinsanir
Töluverðar hreinsanir voru innan Framsóknar haustið 2011, skömmu áður en yfirlýsing þingflokks Framsóknarflokksins er skrifuð. Einar Skúlason, varaþingmaður og fyrrverandi oddviti flokksins í borgarstjórnarkosningum, sagði sig úr flokknum í ágúst 2011, líkt og fjöldi fólks. Inntur eftir ástæðu brotthvarfsins sagði Einar í samtali við DV; „ákveðin tegund af þjóðernisíhaldssemi [hefur mér] … þótt vaxandi hjá flokknum og ég kann mjög illa við enda hef ég alltaf verið alþjóðlega þenkjandi,“ segir Einar og bætir við „Mér finnst flokkurinn hafa breyst svo mikið að mér finnst ég ekki eiga samleið með honum.“
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður flokksins, lét sig svo hverfa af vettvangi fljótlega en við úrsögnina kom í ljós að Guðmundur Steingrímsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, höfðu vart talast við í lengri tíma. Um úrsögn sína var Guðmundur nokkuð skýr, daður við þjóðernishyggju og eingangrunarsinnuð pólitík væri ástæða þess að hann hætti. Nokkur fjöldi framsóknarmanna fylgdi Guðmundi Steingrímssyni úr flokknum og flestir með þeim orðum að flokkurinn væri að þróast í óþægilega átt með daðri sínu við þjóðernishyggju, íhaldssemi, einangrunarstefnu og popúlisma.
Pregnant women are advised not to use Botox because it can affect tadalafil 10mg uk the placenta. Pfizer’s Talking RobotPerhaps the finest moment of the festival, buy viagra shop in our eyes, belonged to Oscar, the cheeky robotic chappy accompanying the bods from festival sponsors, Pfizer. The viagra pharmacy scientists don’t understand why the medication has this result upon people’s consuming habits. Anxiety and impotence are interrelated to each other; you need to overcome the anxiety viagra cheapest price first to overcome the impotence.
Hættu þessu Sigmundur
Það þarf svo ekki að leita mjög langt aftur til að skynja óánægju flokksfélaga Framsóknarflokksins á daðri formannsins og forystunnar við þjóðernishyggju. Forystu flokksins, þeirri sömu og frábað sé tengingar við þjóðernisdaður í nóvember sama ár, hefði því átt að vera nokkuð ljóst að flokkurinn var þegar farinn að bera með sér þessa ásýnd. Í maí árið 2011 samþykkti aðalfundur fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Kópavogi ályktun þar sem málflutningi Sigmundar Davíðs var hafnað. Sigmundur Davíð hafði þá lagt fram fyrirspurn á Alþingi þar sem hann spurðist sérstaklega fyrir um hlut fólks, sem er af erlendu bergi brotið, í afbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi. Stuttu síðar lét hann hafa eftir sér að fjárfestingar innlendra fjármagnseigenda væru æskilegri en þeirra erlendu, þar sem síðarnefndi hópurinn sæktist fyrst og fremst eftir ágóða sem flytja mætti úr landi.
Ótengdur Tími
Lykilatriði í sjálfsmynd Framsóknar-flokksins eru hugmyndir um að flokkurinn sé fórnarlamb ofsókna, fjandskapar og misskilnings. Einhver furðulegasta birtingarmynd ofsóknaræðisins, sem virðist hafa náð tökum á Framsóknarflokki Sigmundar Davíðs, eru tilraunir flokksins til að eignast fjölmiðla sem eru flokknum vilhallir. Í fyrstu má nefna endurkomu Tímanns, sem vefmiðils árið 2011 en vefurinn var rekinn af Útgáfufélagi Tímans. Opinberlega hafði Tíminn engin tengsl við Framsóknarflokkinn og leigði aðeins nafn og lén af flokknum. Hins vegar kemur fram í umfjöllun DV frá árinu 2012, þar sem sérstaklega er fjallað um tilraunir flokksins til að koma fótum undir miðil sem er vilhallur Framsóknarflokknum, að ljóst megi vera að tengsl félagsins við flokkinn og forystu Framsóknarflokksins séu umtalsvert meiri en opinberlega var gefið upp. Varnarþing félagsins var í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu og ritstjórn félagsins var með aðsetur á skrifstofu flokksins, nánar tiltekið á skrifstofu borgarstjórnarflokks Framsóknarflokksins. Eignarhald félagsins er rekið í sömu umfjöllun.
Svo var það Fréttatíminnn
Þrátt fyrir að Tíminn næði aldrei almennilegu flugi og að afar illa hafi gengið fyrir flokkinn að sannfæra almenning um hlutleysi miðilsins var tilraunum framámanna innan flokksins til að sölsa undir sig fjölmiðil ekki lokið. Helgi Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Útgáfufélags Tímans ehf., fór fyrir hópi fjárfesta með tengsl innan Framsóknarflokksins og lýsti áhuga á að kaupa Fréttatímann. Í samtali við DV neitaði Helgi öllum tengslum við flokkinn. Í umfjöllun DV segir: „Blaðamaður ræddi við fjölda aðila sem komu að stofnun útgáfufélagsins, starfi Framsóknar sem og aðila sem vel þekkja til starfs Framsóknarflokksins við vinnslu fréttarinnar. Ítrekað kom fram að djúpstætt vantraust virðist ríkja innan flokksins á fjölmiðlum. Lýsti einn viðmælandi blaðsins ástandinu sem sjúku. Sami viðmælandi sagði þá sem ekki starfa í flokknum ekki gera sér grein fyrir hvernig talað sé um fjölmiðla og einstaka fjölmiðlamenn innan flokksins. Hann sagði þá fáa sem myndu trúa hatrinu sem ríkir innan Framsóknar í garð ákveðinna einstaklinga og miðlanna sem þeir starfa á. Þá sé fólk í trúnaðarstöðum innan flokksins, sem raunverulega trúi því að bág staða Framsóknar í skoðanakönnunum sé til komin vegna óbilgjarnra fjölmiðla sem noti hvert tækifæri sem gefst til að ráðast á Framsóknarflokkinn á sama tíma og ekki sé fjallað um áherslur eða stefnu Framsóknarmanna. Sú skoðun að fjölmiðlar starfi fyrst og fremst í þágu Sjálfstæðisflokksins eða Samfylkingarinnar er nokkuð ríkjandi að mati heimildarmanna.“
Þá segir ennfremur í umfjöllun blaðsins að: „Umfjöllun um spillingu Framsóknarflokks fyrri ára virðist því ganga mjög nærri þeim sem starfa í flokknum. Á viðmælendum DV má greina að þeir telji umbótastarfi innan flokksins lokið. Framsókn hafi með hreinsunum trúnaðarmanna og stefnubreytingu síðari ára gert upp við fortíðina en að fjölmiðlar virðist einsetja sér að tala niður starf flokksins og uppgjörið við formennsku Halldórs Ásgrímssonar. Sjónarmið þeirra sem nú starfi í flokknum komist ekki að í fjölmiðlum fyrir umfjöllun um fólk sem að mati margra í flokknum hafi raunar enga tengingu lengur við flokkinn.“
Elítan, Icesave og samsæri kratanna
Sú trortryggni sem birtist innan Framsóknarflokksins gagnvart fjölmiðlum setur orðfæri forystu flokksins, formanns og aðstoðarmanna ráðherra í nýtt samhengi. Þannig hefur Vigdís Hauksdóttir ítrekað gerst sek um að vega að mál- og atvinnufrelsi þeirra sem gagnrýna störf hennar og flokksins. Nýjasta dæmið er hvatning hennar til auglýsenda Kvennablaðsins í kjölfar greinar sem birtist á vef blaðsins með safni af skrautlegum ummælum í hennar eigu. Sigmundur Davíð hefur nýtt sér svipaðar aðferðir þegar hann hyggst verjast gagnrýni. „Það er merkilegt að sjá hverjir eru helstu talsmenn kröfugerðar Breta og Hollendinga. Þeir koma flestir úr þeim hópi fólks sem er stundum skilgreindur sem „elítan“ í þjóðfélagsumræðu á Vesturlöndum,“ skrifaði Sigmundur á vefsvæði sitt árið 2011. Þá er loftárásapistill forsætisráðherra frægur en í honum birtist nokkuð vel sú fórnarlambaorðræða sem fulltrúar Framsóknarflokksins hafa ítrekað tamið sér sem viðbrögð við gagnrýni. „Á meðan sú ríkisstjórn [innsk: vinstristjórn Samfylkingar og VG] var að gera sínar bommertur leið varla sá dagur að við sem þá vorum í stjórnarandstöðu spyrðum ekki hvort annað „hvernig væri umfjöllun fjölmiðla ef ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði gert annað eins?“ Svo var brosað að tilhugsuninni um hvers konar „loftárásir“ slík ríkisstjórn hefði fengið yfir sig vegna sambærilegra mála,“ skrifaði Sigmundur og gerði því skóna að hans ríkisstjórn og flokkur fengi töluvert verri útreið í fjölmiðlum en fyrri ríkisstjórn. Þá sakaði hann stjórnarandstöðuna um ósannindi og gerði val fjölmiðla á viðmælanda tortryggilegt með því að vitna í skoðanir viðmælandans á Icesave.
Af nægu að taka
Hér gefst vart tækifæri til að rifja upp öll þau atvik þar sem fulltrúar flokksins hafa viljað kenna ósanngjörnum fjölmiðlum sem og óvildarmönnum flokksins um eigin vandræði. Fræg eru ummæli Vigdísar Hauksdóttur um að kratasamsæri væri möguleg ástæða þess að notkun iðnaðarsalts í matvöru vekti athygli. Hún hefur sömuleiðis haldið því fram að umfjöllun um fyrirspurn hennar á þingi vegna hælisleitenda og mögulega notkun ökklabanda á hóp hælisleitenda sé á misskilningi byggð og til þess fallin að sýna hana í neikvæðu ljósi. Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins var lengi vel einn af forvígismönnum hóps sem þóttist sinna eftirliti með hlutleysi RÚV, en innan hópsins er RÚV sakað um ómaklegan fréttaflutning um Ísraelsríki og áróður gegn bandarísku Teboðshreyfingunni, svo dæmi séu nefnd. Frosti hefur nú yfirgefið hópinn en ekki fyrr en eftir að hann hafði beðið listamann um að skilja stjórnmálin eftir heima ætlaði sá hinn sami að taka þátt í umræðu á RÚV. Þá lagði Frosti til að stofnuð yrði sérstök nefnd sem hefði eftirlit með hlutleysi stofnunarinnar.
Í ráðherraliði Framsóknarflokksins hafa tveir ráðherrar gerst sekir um ritstjórnar- og þöggunartilburði. Sigurður Ingi Jóhannesson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sakaði fagmenn sem honum voru ósammála um að vera pólitískir sökum gagnrýni þeirra á störf hans og fyrirhugaða endurskoðun rammaáætlunar. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra skrifaði grein á vefsvæði sitt þar sem hann sakaði Hallgrím Helgason rithöfund um að hafa nýtt sér rými sitt á RÚV til áróðurs fyrir Samfylkinguna. Ráðherrann kallaði eftir því að framsóknarmenn fengju jafn margar áróðursmínútur og Samfylkingin. „…stjórnendur Ríkisútvarpsins [hljóta] að bjóða einhverjum framsóknarmanni en rithöfundinum virðist sérstaklega í nöp við okkur framsóknarmenn, að mæta í Efstaleitið og útvarpa „framsóknarsannleik“ um Samfylkinguna…“ Skömmu síðar neitaði Gunnar Bragi svo að veita ríkisútvarpinu viðtal nema stofnunin fylgdi skilmálum hans, sem var neitað. Rótgróin og viðvarandi andúð Framsóknarflokksins á fjölmiðlum og þeim sem þar starfa ættu að setja harkalegar niðurskurðaráætlanir hjá RÚV í rétt samhengi.
Vildi leiðréttingu frá Margréti
Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingkona Hreyfingarinnar sagði í ítarlegu viðtali við Kjarnann, sem birt var í desember árið 2013 að hún óttaðist daður Framsóknarflokksins við útlendingaandúð. „Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessari orðræðu í utanríkismálunum. Stefnan virðist vera að horfa aðallega inn á við, helst bara í Skagafjörðinn,“ sagði Margrét við Kjarnann. „Við [Hreyfingin] vorum litli nýi róttæki flokkurinn á þingi á síðasta kjörtímabili og inn í slíka flokka leita ýmis öfl, meðal annars xenófóbísk (útlendingahatur). Við vorum gríðarlega meðvituð öll þrjú sem mynduðum þingflokkinn um að þetta væri eitthvað sem við ætluðum að berja niður ef við gætum,“ segir Margrét og bætir við að þessi viðhorf finni sér oft farveg þegar þrengi að.
„Svo finnur þessi orðræða sér stað ekki hjá okkur heldur í elsta stjórnmálaflokknum (Framsóknarflokknum). […] Ég þekki marga þingmenn þar og sumt af þessu fólki er á algjörlega öndverðum meiði og tekur engan veginn undir þessa orðræðu. En það lýsir þeim skoðunum sínum ekki út á við. Og það er mjög hættulegt þegar ekkert opinbert nei kemur frá Framsóknarflokknum gegn þessum skoðunum,“ sagði Margrét.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar brást ókvæða við ummælum Margrétar og krafðist afsökunarbeiðni. „Ég er nú almennt seinþreyttur til vandræða en er algjörlega krossbrjálaður yfir því að Margrét Tryggvadóttir skuli leyfa sér að ljúga því blákalt upp á mig og samstarfsfólk mitt í Framsókn að við séum gróðrarstía útlendingahaturs! Hvað gengur þessari konu til?! Ég myndi aldrei, aldrei, aldrei! vinna í stjórnmálaflokki sem hefði slíkt á stefnuskrá eða ynni að einhverjum slíkum markmiðum á bak við tjöldin. Það hef ég sagt áður og sams konar skýr skilaboð sendi þingflokkur framsóknarmanna frá sér á síðasta kjörtímabili þegar Eiríkur Bergmann viðraði svipaðar aðdróttanir. Það verður varla skýrara Margrét! Reynsla mín af framsóknarfólki, bæði í grasrót og forystu, er heilt yfir sú að þar fari frjálslynt fólk sem ber virðingu fyrir öðru fólki sama hvaðan í veröldinni það er upprunnið. Það er hreinlega skammarlegt hjá Margréti að láta hafa slíkt fullkomið kjaftæði eftir sér á opinberum vettvangi.“
Viðbrögð Margrétar var löng færsla á vefsvæði hennar, sem ber heitið Þegar gott fólk gerir ekkert, þar sem fjöldinn allur af furðulega popúlískum ummælum trúnaðarmanna flokksins eru rakin. Margrét tekur dæmi af hinni óhreinu evrópsku orku sem eru ummæli í eigu Vigdísar Hauks. Þá nefnir hún yfirlýsingu Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingkonu flokksins, um að margir óttist hælisleitendur, hugmyndir Frosta Sigurjónssonar, þingmanns um að senda erlenda fanga úr landi eru taldar upp ásamt hugmyndum Vigdísar um stórfenglega yfirburði kristinnar trúar yfir islam.
Moskuútspil sem breytti öllu
Hér að ofan hefur daður flokksins við popúlíska orðræðu verið rekin í grófum dráttum ásamt lýsingum um eðli hægri popúlískra hreyfinga. Hvað veldur því að moskuútspil Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita flokksins í Reykjavík, olli svo miklu fjaðrafoki? Skýringin liggur meðal annars í því að með ummælunum skreið Framsóknarflokkurinn yfir ákveðna línu i málflutningi sínum. Þótt flokkurinn hafi á undanförnum árum gælt við útlendingaandúð í málflutningi sínum gegn erlendum kröfuhöfum og í andstöðu sinni við Evrópusambandið þá hefur flokkurinn að mestu haldið sig innan hugmyndafræðilegs ramma frjálslynds lýðræðis.
Útspil flokksins hófst allt með Facebook-stöðufærslu þar sem Sveinbjörg lýsti sig andsnúna byggingu mosku. Hún sagði marga hafa komið að máli við sig vegna málsins. „Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku rétttrúnaðarkirkjuna,“ sagði hún seinna í samtali við Vísi. „Ég trúi því að allir eigi að geta iðkað sína trú. En mér finnst ekki rétt að múslimar eða önnur trúfélög fái lóðir undir byggingu moskna eða sambærilegra húsa. Mér finnst samt bænahús vera annars eðlis og er ekki mótfallin þeim.“ „Það er ekki eins og þessi skoðun sé byggð á fordómum. Ég dæmi bara eftir minni reynslu. Ég er til dæmis nýkomin úr stærstu mosku í heimi í Abú Dabí. Það er engin kirkja þar, eðli málsins samkvæmt.“
Rangt er að engar kirkjur séu í Abú Dabí en það er ef til vill ekki aðalatriði hér. Sveinbjörg sleppti síðan annarri sprengju í umræðuþætti á Stöð 2, kvöldið fyrir kosningadag. Þegar oddviti Dögunar tjáði sig um byggingu mosku í Reykjavík greip Sveinbjörg fram í og sagði meðal annars: „Vilt þú búa í samfélagi þar sem, eins og Svíar þurftu að setja í síðustu viku, að það er refsivert, hver hefði getað ímyndað sér það, að Svíar þyrftu að setja lög þar sem væri refsivert að þvinga fólk í hjúskap.“ Ýjaði hún með þessum orðum að því, að samfélagið hér myndi þróast í þessa átt ef hér yrði byggð moska. Þess skal getið að nauðungahjónabönd eru þegar óheimil á Íslandi.
Framsókn sem fórnarlambið
Tryggir framsóknarmenn hafa ítrekað lýst því yfir að hið eiginlega fórnarlamb sé Framsóknarflokkurinn enda verði meðlimir hans fyrir fordómum óvildarmanna, sem setji samasemmerki milli skoðana einstakra aðila og allra sem kjósi flokkinn. Þótt sannarlega sé rétt að enginn flokkur býr svo vel, eða illa, að allir innan hans séu sammála um allt saman, þá lýsir slík nálgun töluverðu skilningsleysi á eðli stjórnmálaflokka og -hreyfinga. Umfram aðra samfélagshópa er stjórnmálahreyfingum nefnilega ætlað að leggja gjörðir sínar, stefnu, sögu og einstaklinga í dóm almennings. Hreyfingarnar eru beinlínis stofnsettar ákveðnum skoðunum, hagsmunum og stefnu til framdráttar og eru kosningar ein þeirra aðferða sem notaðar eru til að afmarka starfið. Þá er hugmyndin um samábyrgð ein af grunnstoðum flokkakerfisins enda væru flokkar óþarfir ef aðeins væri kosið milli einstaklinga. Auðvitað eru mörkin ekki alltaf svona skýr en í svarinu birtist einmitt eitt af einkennum popúlista; að ofureinfalda öll mál og smætta. Gagnrýni á stjórnmálahreyfinguna Framsóknarflokkinn verður þannig í huga flokksins ekkert öðruvísi en gagnrýni á fólk vegna uppruna síns, litarhafts, trúar eða menningarlegs uppruna. Þar sem flokksfélagar sjálfir, ásamt kjósendum, meta hvað telst til samábyrgðar flokka með orðum og atkvæðum þá sleppa popúlískar hreyfingar oft á tíðum betur frá slíkum hugmyndum og geta leyft sér meira en hefðbundnir flokkar. Popúlískar hreyfingar eru iðulega gagnrýnar á hugmyndir um samábyrgð flokka eins og áður hefur verið tiltekið í greininni.
Það ætti því ekki að koma lesendum á óvart að kjósendur slíkra hreyfinga séu ginkeyptari en aðrir kjósendur fyrir hugmyndum um að einstaka sprikl einstakra fulltrúa flokksins sé úr samhengi við hreyfinguna í heild. Viðbrögð flokksforystu Framsóknar við moskuummælum Sveinbjargar valda því hins vegar að enginn þarf að efast um að Framsóknarflokkurinn var í það minnsta vel tilbúinn að taka til sín fylgisaukningu frá þeim sem leggja fæð á múslima. Þannig lét formaður flokksins bíða eftir sínum viðbrögðum í rúma fimm sólarhringa. Sama má segja um Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra sem taldi Framsóknarflokkinn raunar vera fórnarlamb fordóma, þegar umræðan dó ekki fljótlega eftir kosningar að ósk flokksins. Það skal tekið fram að RÚV hafði eftir Sigrúnu Magnúsdóttur, þingflokksformanni Framsóknarflokksins, í óbeinni ræðu, að ummæli Sveinbjargar um moskubyggingu í Reykjavík væru ekki í samræmi við stefnu flokksins. Þó tók Sigrún fram að fólk hefði rétt á sínum skoðunum í flokknum.
Hatur sem skoðun
Eðlilega velta margir fyrir sér hvers vegna ummæli oddvitans vöktu svo hörð viðbrögð og hvers vegna hún megi ekki eins og aðrir hafa sína skoðun á málinu. Að oddviti rótgróins stjórnmálaafls telji jafnrétti fyrir lögum eitthvað sem lítið mál sé að bregða út af er rof á hugmyndum okkar um samfélagssáttmála sem og rof á hugmyndum um frjálslynt lýðræði. Hugmyndakerfi lýðræðis hefur í raun sigrað í samfélagi nútímans, þrátt fyrir að eflaust séu fæstir svo blindir að telja lýðræði heimsins fullkomið eða raunar sérstaklega vel heppnað. Hugmyndafræðileg átök nútímans rúmast þó alla jafna innan ramma lýðræðis, ellegar teljast þau vart gjaldgeng. Fyrir aðeins nokkrum áratugum hefðu slík átök ekki endilega átt sér stað innan téðs ramma. Fasistar boðuðu þannig ekki lýðræði í hefðbundnum skilningi heldur töldu ákveðna hópa og stéttir eiga tilkall til valds. Þá er vart hægt að segja að bolsévikar hafi boðað átök innan ramma lýðræðiskerfisins. Eins og annað í pólitík eru mörkin ekki alltaf fullkomlega skýr en með útspili sínu og viðbrögðum aðila innan Framsóknar bauð flokkurinn „venjulegu fólki“ að kjósa burt jafnrétti, ákveðins hóps, gagnvart lögum. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, nýkjörinn borgarfulltrúi Framsóknar, undirstrikaði raunar þessa hugmynd fulltrúa flokksins skömmu eftir að Sveinbjörg lét ummælin falla. Aðspurð hvort hún óttaðist ekki að afturköllun lóðarinnar og kosning um málið bryti jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sagði hún í samtali við DV. „Af hverju ætti ég að hafa áhyggjur af því? Er ekki miklu verra að fólk hafi ekki húsnæði í Reykjavík?“
Tengdi sig hægriöfgahreyfingu
Undanfarin ár hefur Framsóknarflokkurinn gengið æ lengra í daðri sínu við popúlisma og útlendingaandúð en með því að slá ekki strax á fingur oddvitans í kjölfar moskuútspilsins tengdi flokkurinn sig losaralegri hreyfingu öfgafólks. Um fimm þúsund manns eru í hópnum Mótmælum mosku í Reykjavík. Hópurinn hefur ekki formlega starfsemi en ljóst má vera á kosningunum að forsvarsmenn hópsins geta virkjað nokkurn hóp fólks til pólitískra aðgerða. Í hópnum viðgengst orðfæri sem er langt út fyrir ramma þess kerfis sem stjórnmálaflokkar starfa innan hér á landi. Á síðunni viðgengst hömlulaus rasismi og útlendingaandúð auk þess sem þeir einstaklingar sem meðlimir hópsins telja til óvina sinna er lítill griður veittur. Framsókn veitti þannig hópum, sem hingað til hafa talist of öfgafullir til að vera marktækir, grið með útspili sínu og lét þá óáreitta fram að kosningum vegna þess að atkvæði þessa fólks töldu.
Frambjóðendur annara hreyfinga og múslimar fundu tilfinnanlega fyrir mun á því hvað var leyfilegt og hvað ekki, eftir lögmæti elsta stjórnmálaflokks landsins á útlendingaandúð. Helga Þórðardóttir, frambjóðandi Dögunar lýsir breytingunni á kosningabaráttunni fyrir og eftir útspil Framsóknarflokksins en á lista Dögunar mátti finna Salman Tamimi, formann Félags múslima. „Ég veit ekkert hvaða flokk þetta fólk hefur kosið en eitt veit ég og það er að með þessu útspili sínu hefur Framsóknarflokkurinn dregið upp undarlega framkomu í sumu fólki. Því fékk ég að kynnast síðustu daga fyrir kosningar. Það var oft öskrað á mig og ég fékk að heyra ýmis konar blótsyrði frá fólki þegar það sá að ég var með Dögunarbækling. Það vildi ekki sjá svona Múslimaframboð. Ég var farin að venjast þessu og labbaði bara í burtu því það var vonlaust að ræða við svona æst fólk. Ég varð bæði sorgmædd og hissa en svona eftirá finnst mér ég hafa lært ýmislegt af þessari lífsreynslu.“
Ítrekaðar viðtalsbeiðnir voru sendar til aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur vegna umfjöllunarinnar. Þau kusu að hundsa þessar beiðnir.